Kínverjar kyrrsetja Boeing 737 Max 8-vélar

Boeing 737-farþegaþota Ethiopian Airlines. Mynd úr safni.
Boeing 737-farþegaþota Ethiopian Airlines. Mynd úr safni. AFP

Kínversk yfirvöld hafa fyrirskipað öllum kínverskum flugfélögum að leggja Boeing 737 Max 8-farþegaþotum sínum, eftir að þota sömu gerðar hrapaði skömmu eftir flugtak í Eþíópíu í gær með þeim afleiðingum að allir þeir 157 sem um borð voru létust.

Segja kínversk yfirvöld þetta vera gert í öryggisskyni og að heimilt verði að fljúga vélunum á ný, um leið og búið sé að staðfesta að gripið hafi verið til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja flugöryggi. BBC greinir frá.

Loftferðaryfirvöld á Cayman-eyjum hafa gripið til sambærilegra ráðstafana, en flugslysið í gær er annað mannskæða flugslysið á skömmum tíma þar sem Boeing Max 8-vél kemur við sögu. 189 manns létust er flugvél sömu gerðar á vegum indónesíska Lion Air-flugfélagsins hrapaði úti fyrir strönd Jövu í október í fyrra.

Öryggisráðstöfun að kyrrsetja vélarnar

Ethiopian Airlines, sem átti vélina sem fórst í gær, tilkynnti í yfirlýsingu sem það sendi frá sér skömmu eftir að Kínverjar tilkynntu kyrrsetninguna að flugfélagið hefði ákveðið að kyrrsetja sínar vélar sömu gerðar þar til annað yrði ákveðið. „Þó að við vitum ekki enn hvað olli slysinu höfum við ákveðið að kyrrsetja þennan flota sem öryggisráðstöfun,“ sagði flugfélagið á Twitter.

Boeing 737 MAX-8-farþegaþotan er ein nýj­asta og tækni­leg­asta farþegaþota sem nú er á markaði. Boeing hef­ur hins veg­ar sætt gagn­rýni und­an­farið vegna mögu­legra tæknigalla á vél­inni, en farþegaþotan kom fyrst á markað árið 2017. Sérfræðingar vara þó við að allt of snemmt sé að segja til um hvað hafi valdið slysinu.

Um 300 slíkar vélar eru nú í notkun víða um heim og segir Guardian um 60 þeirra í eigu kínverskra flugfélaga. Icelandair, sem á þrjár slíkar farþegaþotur, sagði í gær að grannt væri fylgst með þróun mála en ekki stæði til að kyrrsetja vélarnar að svo stöddu.

Hjálparsveitir við störf á þeim stað þar sem farþegaþotan hrapaði …
Hjálparsveitir við störf á þeim stað þar sem farþegaþotan hrapaði í nágrenni bæjarins Bishoftu í Eþíópíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert