Boeing hættir við kynningu á stærstu vélinni

777X-farþegaþotan frá Boeing, sem hér sést í bakgrunni, er sú …
777X-farþegaþotan frá Boeing, sem hér sést í bakgrunni, er sú stærsta sem framleidd hefur verið. Fyrirtækið hætti þó við fyrirhugaða kynningu á nýju þotunni vegna flugslyssins í Eþíópíu. AFP

Flugvélaframleiðandinn Boeing hefur nú hætt við að kynna nýtt flaggskip fyrirtækisins, farþegaþotuna Boeing 777X, í kjölfar þess að vél frá fyrirtækinu, Boeing 737 Max 8, hrapaði á sunnudag yfir Eþíópíu með 157 manns innanborðs, að því er danska ríkisútvarpið DR greinir frá.

Er þetta annað mannskæða slysið á innan við fimm mánuðum þar sem vél þessarar tegundar kemur við sögu og sæta Boeing og bandaríska flugferðastofnunin nú vaxandi þrýstingi að kyrrsetja Max-vélarnar, líkt og fjölmörg ríki og flugfélög hafa nú þegar gert.

Til stóð að kynna Boeing 777X-farþegaþotuna í dag, en vélin á að geta flutt allt að 425 farþega og er lengsta farþegaþota sem nokkur flugvélaframleiðandi hefur framleitt til þessa. Hún er 77 metrar á lengd og með 72 metra vænghaf og er þegar búið að selja 300 eintök af vélinni, þótt engin hafi verið afhent enn þá.

„Boeing harmar verulega slys flugs 302 frá Ethiopian Airlines og áhersla okkar er á að styðja viðskiptavini okkar,“ voru skrifleg svör sem danska Ritzau-fréttastofan fékk frá Boeing. „Í ljósi þess hefur kynningu á 777X 13. mars verið aflýst. „Við leitum þó leiða til að kynna þessa nýju vél fyrir heiminum í nánustu framtíð.“

Boeing ítrekar þó að smíði vélanna sé á áætlun, einungis kynningunni hafi verið aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert