Þrír yfirheyrðir vegna árásarinnar í Utrecht

Lífið gengur að mestu sinn vanagang í Utrecht í dag …
Lífið gengur að mestu sinn vanagang í Utrecht í dag en fjöldi fólks hefur lagt blóm á torgið þar sem árásin átti sér stað. AFP

Hollenska lögreglan yfirheyrði í morgun þrjá menn vegna skotárásarinnar í sporvagni við 24. október-torgið í borginni Utrecht í gær. Þrír létust í árásinni og fimm særðust.

Byssumaðurinn, Gökmen Tanis, var handtekinn síðdegis í gær eftir að hafa verið á flótta frá lögreglunni frá klukkan tíu um morguninn, eftir að árásin átti sér stað. Tveir menn til viðbótar voru handteknir og yfirheyrðir en lögreglan hefur ekki gefið upp hver tengsl þeirra við árásina eru.

Borgarstjórinn í Utrecht sagði í gær að málið sé rannsakað sem hryðjuverk en lögreglan vill ekki útiloka að ástæða árásarinnar hafi verið önnur, til að mynda fjölskylduerjur. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að leyniþjónusta Tyrklands sé með árásina til skoðunar og gaf hann í skyn að ástæða hennar væri fjölskylduerjur.

„Sumir segja að árásin tengist fjölskylduerjum, aðrir segja að þetta sé hryðjuverkaárás. Leyniþjónustan okkar er að skoða málið. Ég hef ekki talað við yfirmann leyniþjónustunnar enn þá,“ sagði Erdogan í samtali við Ulke TV.

Lífið gengur að mestu sinn vanagang í Utrecht í dag og eru almenningssamgöngur komnar í samt horf. Fjöldi fólks hefur lagt blóm á torgið þar sem árásin átti sér stað. Ekki hefur verið greint frá nöfnum þeirra þriggja sem létu lífið í árásinni enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert