Tölvuþrjótar réðust á Norsk Hydro

EPA

Tölvuþrjótar gerðu árás á norska álframleiðandann Norsk Hydro í morgun samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Ekki er vitað hverjir voru að verki samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í tilkynningunni að Norsk Hydro hafi orðið fyrir „umfangsmikilli tölvuárás“ snemma í morgun sem hafi haft áhrif á starfsemi fyrirtækisins á nokkrum sviðum. Talsmaður Norsk Hydro, Halvor Molland, segir að ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar að svo stöddu um umfang árásarinnar eða hvaðan hún hafi komið. Unnið sé með norskum stjórnvöldum í málinu. Tæknimenn fyrirtækisins vinni að því að lágmarka þann skaða sem árásin hafi valdið.

Samkvæmt frétt AFP hafði árásin áhrif á flest tölvukerfi Norsk Hydro. Slökkt hafi verið á mörgum þeirra í kjölfarið. Vefsíða fyrirtækisins hefur legið niðri í morgun. Hlutabréfaverð í Norsk Hydro hafi lækkað um 2% í morgun í kjölfar frétta af árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert