Dauðar rottur notaðar við smygl

Dauðar rottur fullar af fíkniefnum og símum er nýjasta smyglaðferðin.
Dauðar rottur fullar af fíkniefnum og símum er nýjasta smyglaðferðin. AFP

Glæpagengi eru farin að nota dauðar rottur til þess að smygla eiturlyfjum og símum inn í fangelsi í Dorset, samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálayfirvöldum.

Starfsfólk HMP Guys Marsh-fangelsins fann nýverið þrjár rottur sem höfðu verið saumaðar saman á kviðnum. Þegar nagdýrin voru skoðuð nánar kom í ljós að þau höfðu verið fyllt af símum, hleðslutækjum, símakortum og eiturlyfjum, að því er segir í frétt Guardian.

Rotturnar fundust fyrir innan girðingar fangelsisins en allt bendir til þess að þeim hafi verið kastað yfir girðingarnar þar sem fangarnir tóku á móti sendingunum. Um er að ræða hluta af fangelsinu sem er þekktur fyrir erfið mál, það er fanga sem hafa ítrekað brotið reglur fangelsisins. 

Áður hafa verið dæmi um að glæpahringir noti dúfur og tennisbolta til þess að smygla inn varningi til fanga. 

Eitt af því sem ráðherra fangelsismála, Rory Stewart, leggur til er að herða enn frekar eftirlit í fangelsum og öryggisgæslu. 

Eitt helsta eiturlyfjavandamál breskra fangelsa er notkun á spice og segir yfirmaður lögreglumála hjá Lincolnskíri, Marc Jones, í samtali við Guardian að spice sé alvarlegasta heilbrigðisvandamál sem Bretar hafi staðið frammi fyrir í áratugi. 

Eiturlyfið spice.
Eiturlyfið spice. Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert