Fékk jafnmarga þingmenn og Rutte

Thierry Baudet, leiðtogi hollenska stjórnmálaflokksins Vettvangs fyrir lýðræði.
Thierry Baudet, leiðtogi hollenska stjórnmálaflokksins Vettvangs fyrir lýðræði. AFP

Hollenski stjórnmálaflokkurinn Vettvangur fyrir lýðræði (FvD) náði góðum árangri í héraðskosningum í landinu á dögunum sem þýðir að flokkurinn er núna sá stærsti í efri deild þings Hollands ásamt flokki Marks Rutte, forsætisráðherra landsins, VVD.

Vettvangur fyrir lýðræði, sem var stofnaður árið 2017 og lýtur forystu Thierrys Baudet, hlaut 12 sæti í efri deildinni en þar eiga sæti 75 fulltrúar. Stefna flokksins er andvíg íslam og byggir á harðri innflytjendastefnu. Þá vill hann að Holland yfirgefi Evrópusambandið.

Kosningin þýðir að samsteypustjórn Ruttes hefur ekki lengur meirihluta í efri deildinni og þarf því að leita samstarfs við fleiri flokka til þess að tryggja sér nauðsynlegan stuðning. Forsætisráðherrann hefur ekki útilokað þann möguleika að vinna með Baudet.

Breska viðskiptablaðið Financial Times greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert