Hótar að loka landamærunum – aftur

Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar stuðningsmenn sína í Grand Rapids í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar stuðningsmenn sína í Grand Rapids í Michigan-ríki. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði því í dag á nýjan leik að loka landamærum landsins að Mexíkó á þeim forsendum að ólöglegir innflytjendur kæmust óhindraðir yfir þau. „Gæti lokað suðurlandamærunum,“ skrifaði Trump á Twitter.

„Mexíkó er ekki að gera neitt til þess að aðstoða við að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda til landsins okkar. Þeir tala bara og gera ekkert,“ skrifaði forsetinn enn fremur. „Að sama skapi hafa Hondúras, Gvatemala og El Salvador tekið við peningunum okkar árum saman en gera ekkert. Demókrötum er alveg sama, mjög slæm lög.“

Fram kemur í frétt AFP að ítrekuð hótun Trumps um að loka landamærunum bendi til þess að hann hafi í hyggju að leggja aukna áherslu á hertari innflytjendalöggjöf í aðdraganda forsetakosninganna sem fram fara á næsta ári.

Stjórnvöld í Mexíkó hafa hafnað ásökunum Trumps og sagt rangt að þau væru ekkert að gera í málinu. „Við erum að gera allt sem við getum til þess að hjálpa. Við viljum alls ekki lenda í deilu við Bandaríkin,“ sagði Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, við blaðamenn í dag.

Obrador sagði að lausnin væri hins vegar fólgin í því að taka á þeim atriðum sem leiddu til þess að fólk reyndi að komast ólöglega til Bandaríkjanna.

Trump ræddi landamæramálið í ræðu á fundi með stuðningsmönnum sínum í Michigan-ríki í dag þar sem hann sagði önnur ríki setja upp vélbyssur á landamærum sínum. Bandarísk stjórnvöld gætu það ekki. Þess í stað væru þau að reisa landamæravegg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert