Áratugalöng ráðgáta um Gretti leyst

Lati kötturinn Grettir hefur í yfir þrjátíu ár sett svip …
Lati kötturinn Grettir hefur í yfir þrjátíu ár sett svip sinn á strandlengjuna í Finistere-héraði í norðurhluta Frakklands. Ráðgátan hefur loks verið leyst, 30 árum frá því að fyrstu símarnir ráku á land. AFP

Í meira en þrjátíu ár hefur appelsínugulum símum í laginu eins og vinsæli teiknimyndakötturinn Grettir (e. Garfield) rekið á land í strandbæjum í norðurhluta Frakklands.

Símarnir hafa vakið mikla furðu, ekki síst meðal umhverfisverndarsinna sem hafa ekki tölu á hversu marga síma þeir hafa veitt upp úr sjónum. Ráðgátan um plastsímana hefur nú loks verið leyst, um þremur áratugum eftir að fyrstu símana rak á land.

Heimamenn hefur lengi grunað að símarnir hafi komið úr gámi sem féll líklega í sjóinn í óveðri fyrir mörgum árum. Umhverfisverndarsamtökin Ar Viltansou hafa nú fengið það staðfest, þökk sé forvitnum heimamanni.

„Samtökin okkar hafa verið starfandi í 18 ár og í hvert einasta skipti sem við höfum farið í skipulagða tiltekt eftir strandlengjunni á þessum slóðum finnum við Grettis-síma,“ segir Claire Simonin, yfirmaður samtakanna.

Grettir unir sér vel á ströndinni í Frakklandi. Umhverfiverndarsinnar eru …
Grettir unir sér vel á ströndinni í Frakklandi. Umhverfiverndarsinnar eru hins vegar ekki hrifnir af plastkisa sem mengar strendur héraðsins. AFP

Neðansjávarhellir fullur af appelsínugulum símum

Bóndi á svæðinu hafði orðið var við símana allt frá því á níunda áratugnum og tengdi hann þá við mikið óveður sem gekk yfir svæðið. Hann grunaði að gámur með símunum hefði fallið í sjóinn og hann hafði einn stað í huga. Grunur hans reyndist réttur en gámurinn fannst í afviknum helli á 30 metra dýpi sem aðeins er aðgengilegur í fjöru. Mikið grjót er hins vegar yfir gámnum og erfitt að komast að honum eða áætla hversu margir Grettissímar er enn inni í honum. Claire segir að í leiðangrinum hafi þau fundið 23 síma í heilu lagi.

Hreinsunarstarfi Air Viltansou er hins vegar hvergi nærri lokið, nóg er af Grettissímum og öðru plastrusli sem þarf að fjarlægja af strandlengjunni.

Ráðgátan er heldur ekki leyst að öllu leyti, enn er óljóst hvaðan gámurinn með öllum Grettissímunum kom upphaflega. „Við höfum enga hugmynd hvað gerðist á sínum tíma, hvaðan hann kom. Við vitum heldur ekki hvort fleiri gámar féllu í sjóinn eða bara þessi eini,“ segir Fabien Boileau, framkvæmdastjóri sjávarþjóðgarðsins í Finistere.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert