Fengum pítsu og svo var fluginu aflýst

Frá Leifsstöð í morgun.
Frá Leifsstöð í morgun. mbl.is/​Hari

Erlendir fréttamiðlar hafa fjallað um fall WOW air og áhrifin á farþega víða um heim. Á vef BBC er rætt við Írann Barrai Omuireagain, sem er einn af um það bil 10.000 farþegum sem urðu strandaglópar á fimmtudag eftir að flugfélagið greindi frá því að það væri hætt starfsemi. 

Fram kemur í umfjölluninni að hann hafi átt bókað flug frá Detroit í Bandaríkjunum til Dublin á Írlandi á miðvikudagskvöldið kl. 19 að staðartíma. 

„Þá var því frestað, og því var síðan frestað á klukkustundar fresti, og loks um kl. 23 á miðvikudagskvöld spurði ég hvað myndi gerast ef félagið færi í þrot.“

Hann segist hafa fengið þau svör frá flugfreyju að það væri ekki að fara að gerast „[...] og þau gáfu okkur pítsu, og sögðu að von væri á flugáætlun innan fimmtán mínútna.“

„Það næsta sem gerist er að flugfreyjan upplýsir okkur um það að búið sé að aflýsa fluginu,“ segir Omuireagain.

Hann var á ferð ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum. Þau fengu gistingu á hóteli og þegar þau vöknuðu í gærmorgun, fimmtudag, kom í ljós að WOW air væri hætt rekstri. 


Fjallað er um málið á stærstu fréttamiðlum heims, m.a. á CNN eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. 

Hér má sjá umfjöllun Reuters.

Umfjöllun USA Today

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert