Var jólagjöfin til barnanna

AFP

„Tíu daga dvöl okkar í Evrópu er úr sögunni,“ segir Megan Russel, einn þúsunda farþega WOW air sem hefur orðið fyrir barðinu á gjaldþroti flugfélagsins, í samtali við CBS þegar sjónvarpsstöðin náði tali af henni þar sem hún var stödd á Newark-flugvelli í New Jersey í Bandaríkjunum.

„Þau sendu aldrei tölvupóst. Þau hringdu aldrei. Þau sendu engin smáskilaboð. Við fengum að vita þetta í Detroit þaðan sem við tókum tengiflug til Newark-flugvallar. Það var í dag í rauninni,“ sagði Russel í samtali við CBS, en flugfélagið Delta bauðst til þess að fljúga henni til Newark.

Megan var á ferðalagi með fjögur börn sín til Evrópu. Hún er frá Salt Lake City í Utah-ríki, en ferðin var jólagjöf hennar til barna sinna. Spurð hvert framhald ferðar hennar yrði sagði hún Evrópuferðina úr sögunni. 

„Ég er einstæð móðir og það að bóka ferðir til Evrópu kemur illa við fjárhag minn. Ég geri ráð fyrir því að njóta nokkurra daga hér í New York og halda heim á leið fljótlega,“ sagði hún.

Sex þúsund dölum fátækari

CBS greinir frá því að aflýsing flugferða WOW air hafi valdið úlfúð meðal farþega víða í Bandaríkjunum. Í borginni Baltimore hafi lögregla verið kölluð að einu hliða flugvallar til að stilla til friðar.

Ferðalag Megan Russel átti að hefjast í Amsterdam í Hollandi. Hún kveðst vera um sex þúsund bandaríkjadölum fátækari og að ótal klukkustundir sem hún hafi varið í skipulagningu hafi verið til einskis.

„Öll tengiflug okkar, „Euro-rail“-passinn, öll gistingin gegnum AirBnb í tíu daga verða ekki svo við töpum miklum peningum á þessu,“ sagði hún, en kvaðst þó vonast til þess að geta endurheimt einhvern hluta kostnaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert