Vilja fjórðu atkvæðagreiðsluna

Á mánudag er stefnt að því að halda ráðgefandi atkvæðagreiðslur …
Á mánudag er stefnt að því að halda ráðgefandi atkvæðagreiðslur um aðra kosti í stöðunni. AFP

Theresa May og ríkisstjórn hennar leita nú leiða til þess að fara aftur með útgöngusamning úr Evrópusambandinu fyrir breska þingið og greiða um það atkvæði í fjórða sinn í tilraun til þess að fá stuðning þingsins.

Frá þessu er greint á vef BBC. Í kjölfar ósigurs May í gær, þegar samningurinn var felldur í þriðja sinn á þinginu, sagði hún að nú þyrfti að leita nýrra leiða til að halda áfram.

Á mánudag er stefnt að því að halda ráðgefandi atkvæðagreiðslur (e. indicative votes) um aðra kosti í stöðunni meðal allra flokka breska þingsins, og þykir ekki útilokað að endanlega verði kosið á milli þess valkostar sem reynist vinsælastur í þeirri atkvæðagreiðslu og útgöngusamnings May.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur kallað eftir því að May breyti samningi sínum eða segi af sér þegar í stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert