Grænkerar dæmdir fyrir skemmdarverk

AFP

Dómstóll í frönsku borginni Lille dæmdi í gær tvo aðgerðasinna í fangelsi fyrir að hafa ráðist gegn fyrirtækjum sem selja kjöt og fisk og aðrar dýraafurðir. Aðgerðasinnarnir eru grænkerar (vegan) og vildu með þessu sýna andstöðu við sölu slíkra afurða.

Um er að ræða par og var annað þeirra dæmt í sex mánaða fangelsi en hitt í tíu mánaða. Jafnframt var þeim gert að greiða fórnarlömbum sínum miskabætur.

Parið, Cyrile sem er 23 ára gamall starfsmaður í félagsmiðstöð, og Mathilde, 29 ára starfsmaður á leikskóla, var dæmt fyrir að hafa brotið rúður og kveikt í á nokkrum stöðum í Lille og nágrenni á tímabilinu nóvember 2018 til febrúar 2019.

AFP

Þykir líklegt að þau sleppi við að afplána dóma sína á bak við lás og slá því samkvæmt frönskum lögum er heimilt að breyta fangelsisdómum sem eru styttri en tvö ár í samfélagsþjónustu.

Að sögn formanns kjötkaupmanna á svæðinu var nauðsynlegt að kæra parið fyrir brot þess til þess að koma í veg fyrir að fleiri fylgdu í kjölfar þess og réðust til atlögu gegn fyrirtækjum á svæðinu. Tvö önnur voru einnig dæmd samsek en þau fengu bæði hálfs árs skilorðsbundna fangelsisdóma. Að sögn forsvarsmanna fyrirtækjanna nemur kostnaður vegna skemmdarverkanna milljónum evra.

Cyrile og Mathilde, sem hafa aldrei komist í kast við lögin, játuðu að hafa tekið þátt í skemmdarverkunum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert