Vilja herða lög um hælisumsóknir

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að horfast verði í augu …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að horfast verði í augu við það að hælisleitendum hafi fjölgað mjög mikið í landinu vegna aukins óstöðugleika í heiminum. AFP

Stjórnvöld í Kanada hafa í hyggju að koma í veg fyrir að fólk geti sótt um hæli í landinu ef það hefur þegar lagt slíka umsókn fram í öðru ríki. Samtök sem beita sér í þágu flóttafólks hafa mótmælt áformunum og sagt þau árás á fólk í viðkvæmri stöðu.

Fram kemur í frétt AFP að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hafi varið áform ríkisstjórnar sinnar en þeim sé einkum ætlað að koma í veg fyrir það sem kallist „asylum shopping“. Trudeau sagði við blaðamenn í dag að horfast yrði í augu við það að hælisleitendum hefði fjölgað mjög mikið vegna aukins óstöðugleika í heiminum. Einnig yrði sett aukið fé í málaflokkinn og tryggt að kerfið væri réttlátt í garð allra.

Gagnrýnendur segja að málið fari illa saman við ímynd Kanada undir forsæti Trudeaus sem ríkis sem taki vel á móti þeim sem vilji setjast þar að. Embættismenn segja hins vegar að nauðsynlegt sé að létta á flóttamannakerfi Kanada sem ráði vart við verkefni sín í kjölfar mikils straums fólks sem komið hafi til landsins í gegnum Bandaríkin.

Ráðherra innflytjendamála, Ahmed Hussen, sagði fyrr í vikunni að fyrirhuguð áform nytu stuðnings Sameinuðu þjóðanna og myndu þýða að um eitt þúsund umsækjendum yrði neitað um hæli í Kanada á ári hverju. Verið væri að tryggja að flóttamannakerfi Kanada væri í samræmi við kerfi annarra þróaðra ríkja hvað þetta varðaði.

Frá því snemma árs 2017 hefur fjöldi hælisleitenda í Kanada aukist mjög en um 40 þúsund manns hafa komið yfir landamærin að Bandaríkjunum í kjölfar hertrar innflytjendalöggjafar þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert