Handtakan ógni öryggi allra blaðamanna

Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks segir að handtaka Julians Assange og …
Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks segir að handtaka Julians Assange og væntanlegt framsal hans til Bandaríkjanna skapi fordæmi sem ógni starfsöryggi og öryggi blaðamanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þessi smánarlega aðgerð, sem er fullkomlega brot á alþjóðalögum og samningum um meðferð flóttamanna og hælisleitenda er skelfileg,“ segir Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks í samtali við mbl.is um handtöku Julians Assange í morgun. Kristinn er staddur í Lundúnum og er augljóslega mikið niðri fyrir vegna handtökunnar.

„Það að Ekvadórar hafi snúið við blaðinu og ákveðið að svipta mann, sem þeir voru búnir að gefa pólitískt hæli, svipta hann öryggi og vernd, er gjörsamlega óviðunandi framkoma,“ bætir Kristinn við, en stjórnvöld í Ekvadór hleyptu breskum lögregluþjónum inn í sendiráðið til þess að handtaka Assange.

„Til þess að gera hlutina enn verri bjóða þeir bresku lögreglunni inn á gafl, inn í sendiráð til þess að handtaka Julian „de facto“ í Ekvadór. Við þessu verður að sjálfsögðu brugðist harkalega af lögmönnum Julians og allar leiðir notaðar til þess að hindra það sem við blasir, sem er það, að hann verði framseldur héðan frá Bretlandi til Bandaríkjanna,“ segir Kristinn.

Þessi ákæra á hendur honum í Bandaríkjunum, fyrir hvað er hún?

„Það veit það enginn, hún var gefin út undir leynd. En það má ætla það, miðað við það sem hefur verið í gangi síðustu mánuði, að þetta snúi að birtingum árið 2010, þ.e.a.s. birtingum á hernaðarskjölum og diplómataskjölum.

Þetta snýr að starfi hans og WikiLeaks í blaðamennsku, að birta staðreyndir um stríðsglæpi, staðreyndir sem augljóslega þjóna almannahagsmunum að séu birtar.

Ef ritstjóri, útgefandi, blaðamaður er handtekinn og hann framseldur til Bandaríkjanna fyrir þann glæp að stunda blaðamennsku þá er illa komið fyrir okkar vestræna samfélagi. Þetta verður fordæmi sem ógnar öryggi og starfsöryggi allra blaðamanna ef fram gengur og verður að hindra,“ segir ristjóri WikiLeaks, sem sleit samtali við blaðamann með þeim orðum að hann væri nú að undirbúa blaðamannafund vegna handtökunnar í Lundúnum.

Viðbót kl. 12:02: Scotland Yard hefur staðfest að framsalsbeiðni hafi borist frá bandarískum yfirvöldum. Assange verður leiddur fyrir dómara í Westminster fljótlega, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu Scotland Yard.

Fjölmiðlafólk að störfum fyrir utan dómstólinn í Westminster, þar sem …
Fjölmiðlafólk að störfum fyrir utan dómstólinn í Westminster, þar sem Assange verður leiddur fyrir dómara. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert