Vill Assange til Ástralíu

Julian Assange var handtekinn á fimmtudagsmorgun.
Julian Assange var handtekinn á fimmtudagsmorgun. AFP

Faðir Julian Assange, stofnanda Wikileaks, vill að ríkisstjórn Ástralíu hjálpi syni sínum með því að fá hann aftur til heimalandsins. Assange var handtekinn í London á fimmtudagsmorgun eftir að hafa dvalið sjö ár í sendiráði Ekvador í borginni.

Faðirinn, John Shipton, sem býr í Melbourne í Ástralíu, hefur hvatt Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, til að beita sér í málinu, með það fyrir augum að Assange verði framseldur til Ástralíu.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Morrison hefur áður látið hafa eftir sér að Assange, sem er ástralskur ríkisborgari, myndi ekki fá einhverja sérmeðferð. Ástralskur ræðismaður gæti aðstoðað hann.

Shipton segist vera í áfalli eftir handtöku sonar síns. „Ég sá hvernig þeir drógu hann niður tröppurnar. Hann leit ekki vel út,“ sagði Shipton.

„Ég er 74 ára og lít betur út og hann er 47 ára,“ bætti hann við.

Bill Shorten.
Bill Shorten. AFP

Þingkosningar fara fram í Ástralíu í næsta mánuði og stjórnarandstöðuleiðtoginn Bill Shorten segist glaður vilja láta sitt fólk ræða við lögfræðinga Assange á næstu vikum.

„Ég veit ekki hvort Assange var blaðamaður,“ sagði Shorten í gær. „Ég ætla ekki að segja að hann sé eins og einhver sem hafi verið á bakpokaferðalagi, hafi lent í vandræðum í Bangkok og þurfi aðstoð sendiráðsins. Ég skil vel að þetta snýst um meira en það.“

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert