Ekki víst að Notre Dame verði bjargað

Takist ekki að halda eldinum frá klukkuturninum er óvíst að …
Takist ekki að halda eldinum frá klukkuturninum er óvíst að takist að bjarga kirkjunni. AFP

Ekki er öruggt að hægt verði að bjarga Notre Dame-dómkirkjunni í París og segir slökkvilið borgarinnar næstu stundir ráða miklu. Um 400 slökkviliðsmenn taka þátt í aðgerðunum.

„Það er ekki öruggt að okkur takist að stöðva útbreiðslu eldsins í átt að nyrðri klukkuturninum. Ef hann hrynur getur maður rétt svo ímyndað sér skaðann,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Jean Claude Gallet herforingja. Stærsta turnspíra kirkjunnar hrundi fyrr í dag, en turnarnir með kirkjuklukkunum standa enn.

Háir hvellir hafa heyrst á svæðinu þegar eldurinn brýst í gegnum þakið og sprengir steindar glerrúður kirkunnar. Leggur slökkviliðið nú mikla vinnu í að reyna að bjarga þeim listmunum sem í kirkjunni eru og forða norðurturninum frá hruni.

Laurent Nunez aðstoðarinnanríkisráðherra var á sama máli og sagði óvíst hvort hægt yrði að bjarga þessari 850 ára gamla gotnesku kirkju.

Eldurinn kviknaði  á fimmta tímanum í dag og hefur því logað í rúma þrjá tíma. Reuters-fréttaveitan hafði eftir talsmanni slökkviliðsins um hálfáttaleytið í kvöld að næstu 90 mínútur ráði úrslitum um hvort hægt verði að bjarga byggingunni.

Sumir féllu niður á hné og báðu bænir.
Sumir féllu niður á hné og báðu bænir. AFP

„Þakið í heild sinni er farið. Ég er vonlítill fyrir bygginguna,“ sagði Jacek Poltrak, einn þeirra sem fylgdist með brunanum.

Slökkviliðsmenn hafa reynt að stöðva frekari útbreiðslu eldsins og hefur svæðið í nágrenni kirkjunnar á Ile de la Cite verið rýmt.

Skrifstofa saksóknara í borginni tilkynnti fyrr í dag að rannsókn væri þegar hafin á upptökum eldsins, sem enn eru óljós. Lögregla borgarinnar hefur sagst líta enn svo á að um óhapp hafi verið að ræða en talið er að eldurinn kunni að hafa kviknað út frá viðgerðum.

Ekki hægt að sleppa vatni yfir kirkjuna

Donald Trump Bandaríkjaforseti stakk fyrr í dag upp á því að vatnsbelgjum yrði sleppt yfir Notre Dame til að reyna að slökkva eldinn. Frönsku almannavarnirnar svöruðu þessari tilllögu Trump með því að slökkvilið sé að vinna eins hratt og hægt er. Það sé hins vegar ekki möguleiki að sleppa vatni yfir bygginguna í heild sinni.

„Hvort sem er úr þyrlu eða flugvél gæti þungi vatnsins og fallþunginn af því að sleppa því úr lítilli hæð orðið til þess að veikja burðarvirki Notre Dame, auk þess að valda skemmdum á nærliggjandi byggingum,“ sögðu almannavarnir á Twitter.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Slökkviliðsmenn að störfum við Notre Dame-kirkjuna.
Slökkviliðsmenn að störfum við Notre Dame-kirkjuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert