Saka Assange um njósnir

Fréttamenn fylgjast með handtöku Julian Assange.
Fréttamenn fylgjast með handtöku Julian Assange. AFP

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, notaði sendiráð Ekvador í London til njósna, segir forseti Ekvador í viðtali við breska blaðið Guardian.

Forsetinn Lenin Moreno segir enn fremur að ákvörðunin um að afturkalla þá vernd sem Assange naut í síðustu viku, sem gerði það að verkum að hann var handtekinn, hafi verið tekin af stjórnvöldum í Ekvador og engum öðrum.

Moreno tók við forsetaembætti Ekvador árið 2017. Hann segir að fyrri ríkisstjórn landsins hafi komið upp aðstöðu í sendiráðinu í London til að „hafa afskipti af öðrum ríkjum“. 

Assange naut verndar í sendiráðinu í sjö ár. Moreno segir í viðtalinu við Guardian að ekki sé hægt að „láta hús okkar, húsið sem opnaði dyrnar, verða miðstöð fyrir njósnir“.

Innanríkisráðherra Ekvador hafði um helgina greint frá því að hreinlæti Assange hefði verið ábótavant og forsetinn vísaði einnig til þess í viðtalinu. 

Lögfræðingur Assange segir ásakanir stjórnvalda í Ekvador fráleitar. „Mér finnst Ekvador hafa sett fram nokkuð fráleitar ásakanir síðustu daga til að réttlæta það sem er ólögleg aðgerð um að leyfa bresku lögreglunni að koma inn í sendiráðið,“ sagði Jennifer Robinson, lögmaður Assange, í gær. Hún segir margt styðja við þá kenningu Assange að framselja eigi hann til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert