Aukinn viðbúnaður við Columbine-menntaskólann

Þessi mynd frá því í apríl 1999 sýnir þungvopnaða lögreglumenn …
Þessi mynd frá því í apríl 1999 sýnir þungvopnaða lögreglumenn við Columbine framhaldsskólann eftir árásina. AFP

Aukin viðbúnaður er nú við Columbine-menntaskólann í Colorado og 20 aðra skóla í nágrenninu eftir að viðvörun var gefin út í dag um „trúverðuga ógn“. 20 ár verða næsta laugardag frá því að tveir vopnaðir námsmenn myrtu 12 bekkjarfélaga sína og kennara í Columbine og tóku að því loknu eigið líf.

Reuters segir viðvörunina nú fela í sér að aðgangur að skólunum sé takmarkaður, en að skólahald haldi að öðru leyti áfram með óbreyttum hætti.

Sögðu lögregluyfirvöld í Jefferson-sýslu á Twitter í dag að lögreglumenn séu nú að „rannsaka það sem þeir telji vera trúverðuga ógn sem mögulega beinist gegn skólum.“ Öryggi nemenda væri hins vegar tryggt og aukinn fjöldi lögreglumanna hefði verið sendur í skólana.

Reuters segir ekki hafa verið greint frá því hvers eðlis ógnin væri, né hverjar kringumstæðurnar væru. Mike Taplin, talsmaður lögreglunnar, sagði þó árásina í Columbine ekki vera „beinan áhrifaþátt“.

Sumir bandarískir fjölmiðlar hafa þó í dag birt mynd af 18 ára konu sem þeir segja yfirvöld nú lýsa eftir, þar sem hún sé haldin þráhyggju gagnvart Columbine árásinni.

Viðvaranir og öryggisæfingar hafa orðið nokkuð algengar í skólum í Bandaríkjunum eftir Columbine árásina, en ofbeldisaðgerðum þar sem skotvopnum hefur verið beitt á skólalóðum hefur líka fjölgað.

Frétt mbl.is um skotárásina í Columbine árið 1999

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert