Icesave-skjöl að baki handtökuskipun

Julian Assange var handtekinn í síðustu viku. Upplýsingar er tengjast …
Julian Assange var handtekinn í síðustu viku. Upplýsingar er tengjast útgáfu handtökuskipunar í Bandaríkjunum hafa verið birtar. AFP

Ritaður vitnisburður lögreglumanns FBI er eitt þeirra skjala sem ákæruvaldið hefur lagt fram til stuðnings útgáfu handtökuskipunar á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Vitnisburðurinn nefnir meðal annars leka á skjölum frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um IceSave-málið sem rök fyrir að handtökuskipun verði gefin út.

Mál Assange er hjá umdæmisdómstól Austur-Virginíu og var umræddur vitnisburður merktur trúnaðarmál, en í gær skipaði dómari að skjöl er tengjast máli Assange skuli gerð opinber og hafa verið birt á síðu The Hill. Í gögnunum er Chelsea Manning nefnd samverkamaður í meintum brotum Assange.

Assange var handtekinn í sendiráði Ekvador í London í síðustu viku fyrir að hafa ekki mætt fyrir breskan dómstól samkvæmt skipun, fyrir um 7 árum.

Samkomulagið

Meginatriðið í vitnisburði lögreglumanns FBI er samkomulag Manning og Assange um að sá síðarnefndi myndi aðstoða Manning við að brjótast inn í tölvukerfi varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og að upplýsingum þaðan yrði miðlað til Wikileaks.

Var Manning í hernum á þessum tíma og hafði aðgengi að tölvum sem tengdar voru kerfinu. Er hún jafnframt sögð hafa komið umfangsmiklum gögnum í hendur Wikileaks.

Umrætt samsæri sannast að mati lögreglumannsins í samskiptum Assange og Manning.

IceSave

Meðal þeirra upplýsinga sem Manning er sögð hafa komist yfir og sent Assange til birtingar eru samskipti innan utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, þar á meðal skjöl sem gerð voru í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík.

Manning fann 14. febrúar 2010 skjal titlað „10 Reykjavik 13“ sem sneri að IceSave-málinu. Fram kemur að hún hafi viðurkennt að hafa gert afrit af umræddum gögnum á geisladisk og að hafa miðlað umræddu skjali til Wikileaks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert