Rýmdu háhýsi í Madrid

Torre Espacio-skýjakljúfurinn er í viðskiptahverfi Madridar.
Torre Espacio-skýjakljúfurinn er í viðskiptahverfi Madridar. AFP

Spænsk yfirvöld rýmdu í dag háhýsi í Madrid vegna sprengjuhótunar. Í byggingunni er m.a. að finna sendiráð. 

Uppfært kl. 12.45: Við rannsókn kom í ljós að um gabb var að ræða.

„Við fengum tilkynningu um sprengjuhótun. Rýming er hafin og við erum að hefja vinnu og skoðun,“ sagði talsmaður lögreglunnar í samtali við AFP-fréttastofuna, fyrst eftir að fréttir af hótunni bárust.

Í byggingunni sem um ræðir er m.a. að finna sendiráð Bretlands, Ástralíu, Hollands og Kanada. 

Í háhýsinu, Torrespacio, eru 57 hæðir og er byggingin 235 metra há. Hún er ein af fjórum skýjakljúfum sem mynda viðskiptagarð í norðurhluta Madridar.

Í færslu ástralska sendiráðsins sem birt er á Twitter segir að sendiráðið, sem er til húsa í byggingunni, verði lokað það sem eftir er dags og þar til annað verður tilkynnt.

Lögreglan rýndi allt húsið en hótunin hafði borist ástralska sendiráðinu. „Það var að lokum komist að þeirri niðurstöðu að um gabb hefði verið að ræða og allt er orðið með eðlilegum hætti,“ sagði talsmaður lögreglunnar eftir að hættuástandi hafði verið aflétt.

Mikill viðbúnaður var við háhýsið í dag og þangað streymdi fjöldi slökkviliðs- og lögreglubíla. Rýmingin tók 5-10 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert