Hroðalegasta fasteignaauglýsing allra tíma?

Hér er parið að sýna áhorfendum eldhúsið.
Hér er parið að sýna áhorfendum eldhúsið. Skjáskot/YouTube

Sérlega óvenjuleg fasteignaauglýsing hefur haldið „virkum í athugasemdum“ við efnið frá því hún var birt í vikunni. Fólk ýmist hatar hana eða elskar.

Fasteignafyrirtæki í Sydney í Ástralíu ber ábyrgð á auglýsingunni en í henni má sjá par dansa í gegnum húsið sem er verið að auglýsa. Myndbandið er tvær mínútur að lengd og hefur bæði hlotið lof og last í netheimum. Sumum finnst auglýsingin „svo hroðaleg að hún nálgast það að vera listaverk,“ eins og haft er eftir netverja í frétt Guardian um málið.

Eignin sem um ræðir er í Padstow. Húsið er fjögurra herbergja og allt er þar „tipp topp“ eins og sagt er. Líklega þurfa þó flestir að horfa á myndbandið tvisvar til að skoða eignina því í fyrstu atrennu er athyglin öll á dansi parsins.

Svo hörð viðbrögð hlaut auglýsingin, sem þykir „óþarflega“ lostafull, að fasteignafyrirtækið LJ Hooker Bankstown sá sig knúið til að biðjast afsökunar á birtingu hennar og fjarlægja myndbandið af samfélagsmiðlum sínum. Sagðist fyrirtækið hafa verið að reyna að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt en að í þetta skipti hafi það farið yfir strikið.

En myndbandið er enn að finna á YouTube þegar þetta er skrifað. Horfðu hér að neðan áður en það verður fjarlægt þaðan líka.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert