Þriggja daga sorg hafin á Madeira

Mynd úr flygildi af slysstaðnum á Madeira þar sem 29 …
Mynd úr flygildi af slysstaðnum á Madeira þar sem 29 þýskir ferðamenn létust. AFP

Þriggja daga sorg á eyjunni Madeira í Portúgal hófst í dag eftir alvarlegt bílslys í gær, þar sem 29 Þjóðverjar létu lífið. Rúta þeirra fór út af vegi á eyjunni, valt niður brekku og hafnaði að lokum á húsi. Flestir hinna látnu voru milli fertugs og fimmtugs, en 11 menn og 18 konur létu lífið. Tæplega fimmtíu manns voru í rútunni.

Ferðamennirnir voru á leið til borgarinnar Funchal til kvöldverðar þegar slysið varð. Rannsókn er hafin á málinu, en Pedro Calado, varaforseti borgarstjórnar, hefur sagt of snemmt að segja til um orsakir slyssins.

Íbúar Madeira og ferðamenn eru slegnir yfir slysinu og hafa …
Íbúar Madeira og ferðamenn eru slegnir yfir slysinu og hafa margir þeirra skilið eftir blóm og kveðjur á við staðinn þar sem bílslysið varð. AFP

Ferðast til Madeira með læknum og sálfræðingum

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur vottað hinum látnu virðingu sína. „Með sorg og skelfingu hugsa ég til samlanda okkar og allra annarra sem hafa orðið fyrir áhrifum af rútuslysinu skelfilega í Madeira,“ sagði í tilkynningu frá henni. „Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til allra fjölskyldnanna sem misstu nákomna í slysinu,“ sagði hún.

Þá hefur Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgal, vottað fjölskyldum hinna látnu virðingu sína.

Rútan hafnaði á húsi eftir að hafa oltið niður bratta …
Rútan hafnaði á húsi eftir að hafa oltið niður bratta brekku. AFP

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, mun ferðast til Madeira í dag ásamt fjölmennu liði lækna og sálfræðinga til þess að vitja þeirra sem slysið henti.

Þeir slösuðu eru í miklu áfalli að sögn Ilse Everlien Berardo, prests í kirkju Þjóðverja á Madeira. Leit stendur yfir að þýskumælandi fólki á eyjunni til þess að annast hina slösuðu. „Jafnvel þótt læknar og hjúkrunarfræðingar sinni störfum sínum af mikilli fagmennsku, þá er mikilvægt fyrir hina slösuðu að heyra móðurmál sitt,“ sagði Berardo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert