Vann 1,3 milljarða og svarar ekki

Páskaútdráttur Víkingalottósins í gær var ekki smár í sniðum, tæpar …
Páskaútdráttur Víkingalottósins í gær var ekki smár í sniðum, tæpar 89 milljónir norskra króna, 1.263 íslenskar milljónir. Ekkert gengur að ná sambandi við vinningshafann. Ljósmynd/Sverre Houmb/Norsk Tipping

„Ert þú með ósvarað símtal úr númerinu 625 60000? Þú gætir hafa dottið í lukkupottinn,“ skrifar Norsk Tipping á heimasíðu sinni en hringjarar getraunafyrirtækisins hafa reynt árangurslaust síðan í gærkvöldi að ná símasambandi við nýbakaðan eiganda 88.922.210 norskra króna, 1.263 íslenskra milljóna, sem átti seðil með tölunum 9, 11, 26, 30, 32 og 37 ásamt víkingatölunni 6 þegar dregið var í Víkingalottóinu í gær. Líkurnar á slíkum vinningi eru einn á móti 98 milljónum.

Norskir fjölmiðlar keppast við að greina frá málinu í dag, en þegar einhver vinnur eina milljón norskra króna eða meira í spilum á vegum Norsk Tipping fá þeir heppnu símtal frá Hamar í Oppland þar sem fyrirtækið er til húsa og blasir númerið 625 60000 við á skjánum, númer sem margur Norðmaðurinn lætur sig dreyma um að fá símtal frá.

Ýmsir fjölmiðlar hafa reynt að veiða upp úr fulltrúum Norsk Tipping upplýsingar um búsetufylki, kyn, aldur og fleira um milljarðamæringinn nýja en Gro Synstad útdráttarstjóri er þögul sem gröfin og segir í tölvupósti til Haugesunds Avis að ekkert verði gefið upp fyrr en náðst hafi í vinningshafann.

Sagði Synstad í samtali við NTB-fréttastofuna, sem dagblaðið VG vitnar í, að hún voni innilega að vinningshafinn fari að ranka við sér og taka símann, mikilvægt sé að veita eigendum slíkra stórvinninga fjárhagslega ráðgjöf strax í upphafi, nokkuð sem einhverjir teldu kannski að væri það síðasta sem fólk með 1,3 milljarða í vasanum þyrfti á að halda.

Tapaði öllu fyrir tilstilli Nordea

Ráðgjöfin er þó ekki út í hött en til eru sögur af norskum nýmilljónerum sem töpuðu öllu og enduðu jafnvel í gjaldþroti eftir stórvinninga. Mál Jan Otto Flåhammer varð fleygt í norskum fjölmiðlum í byrjun aldarinnar, öryrkja í Suður-Þrændalögum sem vann tvisvar í lottóinu, 1997 og 2000, samanlagt 3,9 milljónir norskra króna.

Verðbréfaráðgjafi Nordea-bankans hafði þá samband við Flåhammer og bauð honum gull og græna skóga við ávöxtun fjárins í verðbréfasjóðum bankans. Ráðgjafanum Fredrik Lillemyr tókst á mettíma að tapa hverri einustu krónu vinningshafans og meiru til því Flåhammer tók á síðustu stundu lán til að reyna að snúa gæfunni sér í vil en missti aleiguna. Um þessa sorgarsögu fjölluðu Nettavisen og fleiri fjölmiðlar árið 2004.

Arnfinn Olsen, sextugur sjúklingur, rúmfastur til margra ára vegna lungnaþembu, tapaði ekki öllum 12 norsku milljónunum sem hann vann 2016. Hann gaf þær einfaldlega. „Ég get enga gleði haft af þessum peningum, ég á tíu prósent eftir af lungnarými mínu. Það veitir mér mun meiri ánægju að gefa öðrum þessa peninga en að eiga þá á bankareikningi,“ sagði hinn örláti Olsen við Dagbladet á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert