„Góður dagur“ fyrir Trump

Trump kátur eftir birtingu skýrslunnar í Flórída í gær.
Trump kátur eftir birtingu skýrslunnar í Flórída í gær. AFP

„Þetta er góður dagur fyrir mig. Ég var kallaður „ekkert leynimakk engin hindrun (á framgangi réttvísinnar)“.“ Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti eftir að rannsóknarskýrsla Roberts Muellers, sérstaks saksóknara í Bandaríkjunum, var gerð opinber í gær.

Eins og fram hefur komið segir í skýrslu Muellers að engin sönnun hafi fundist um ólögmæt tengsl milli forsetaframboðs Trumps og Rússlands. Hins vegar segir í skýrslunni að ekki hafi verið unnt að álykta að Trump sé saklaus af ásökunum um að hafa hindrað framgang réttvísinnar.

Þrátt fyrir að Trump hafi lýst málinu loknu má þó búast við því að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér. T.a.m. hafa demókratar þegar krafist þess að Mueller komi og beri vitni fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjanna.

Sekur eða saklaus?

Í myndbandi frá BBC segir bandarískur lagaprófessor eina af stóru spurningunum vera hvort skipun Trumps um að láta reka Mueller úr embætti geti ein og sér talist hindrun á framgangi réttvísinnar (e. obstruction). 

„Trump skipaði Don McGahn, lögmanni Hvíta hússins, að reka Robert Mueller. McGahn neitaði. Ekki bara einu sinni, heldur oft, að fylgja þessari skipun forsetans. Margir segja að ef Trump hefði í raun látið reka Mueller þá hefði það talist hindrun á framgangi réttvísinnar.
Því má spyrja: „Ef forsetinn skipaði fyrir um verknað sem telst hindrun á framgangi réttvísinnar, en enginn hlustaði á hann, var einhver hindrun á framgangi réttvísinnar?““

Þessu veltir umræddur lagaprófessor upp og segir að líklegt sé að einhverjir þingmenn muni fylgja þessari spurningu eftir á næstu dögum og vikum. 

Myndbandið má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert