Vilja ekki starfa fyrir flokkinn

AFP

Virkir flokksmenn í breska Íhaldsflokknum hafa hótað því að starfa ekki fyrir flokkinn í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins í næsta mánuði í mótmælaskyni við að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, verði áfram leiðtogi flokksins.

Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph og rætt við Barry Lewis, fulltrúa Íhaldsflokksins í sýsluráði Derbyshire-sýslu, en ályktun um að aðildarfélag flokksins í sýslunni myndi ekki taka þátt í kosningabaráttunni var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á fundi í félaginu samkvæmt fréttinni.

Mikil óánægja er með May vegna þess að ekki hafi enn orðið af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu eins og til hafi staðið undir forystu hennar. Haft er eftir Lewis að hann hafi ritað forystu Íhaldsflokksins bréf og mótmælt þessu. Til stóð að Bretar gengju úr sambandinu 29. mars en því hefur verið frestað fram í lok október.

„Forsætisráðherrann hét því í óteljandi skipti að við yrðum komin út á þessum tímapunkti og sama gerðu margir aðrir í ríkisstjórninni. En þrátt fyrir það er apríl brátt á enda og við stöndum frammi fyrir vaxandi líkum á að taka þátt í kosningum til Evrópuþingsins í maí sem ættu ekki að vera að eiga sér stað,“ segir Lewis enn fremur.

Vísar Lewis þar til þess að ef Bretland hefði gengið úr Evrópusambandinu 29. mars eins og til stóð hefði ekki þurft að halda kosningar til Evrópuþingsins í landinu. Fram kemur í fréttinni að búist sé við að fleiri aðildarfélög Íhaldsflokksins muni á næstunni lýsa því yfir að sama skapi að þau ætli ekki að beita sér í Evrópuþingkosningunum.

Meirihluti breskra kjósenda greiddi atkvæði með því í þjóðaratkvæði sumarið 2016 að yfirgefa Evrópusambandið sem Bretland hefur tilheyrt frá árinu 1973.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert