Kaupendur íranskrar olíu sæti refsiaðgerðum

Ríki sem kaupa olíu frá Íran geta nú sætt viðskiptaþvingunum …
Ríki sem kaupa olíu frá Íran geta nú sætt viðskiptaþvingunum af hálfu Bandaríkjanna. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur ákveðið að draga til baka undanþágur sem veittar voru þjóðum sem kaupa olíu frá Íran. Munu því undanþágur Kína, Indlands, Japans, Suður-Kóreu og Tyrklands líða undir lok í maí og geta þessi ríki sætt refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjanna í kjölfarið.

Markmið ákvörðunarinnar er að stöðva olíuútflutning Írans og þar með loka á helstu tekjulind landsins, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

Trump setti viðskiptabann á Íran í fyrra í kjölfar þess að hann lýsti því yfir að Bandaríkin myndu ekki lengur vera aðili að samningi sex ríkja auk Írans um að takmarka kjarnorku áform þess síðarnefnda. Íran samþykkti árið 2015 að draga úr umfangi kjarnorkuþróunar sinnar og hleypa alþjóðlegum eftirlitsmönnum til landsins gegn því að dregið yrði úr viðskiptaþvingunum.

Bandarísk yfirvöld vona að hertar þvingunaraðgerðir valdi því að Íran komi að samningaborðinu á nýjan leik og að hægt verði að knýja fram nýjan samning. Trump hefur ítrekað fullyrt að samningurinn sem var gerður árið 2015 hafi verið slæmur samningur.

Þrjú ríki sem fengu umræddar undanþágur hafa þegar látið af viðskiptum við Íran og eru það Tævan, Grikkland og Ítalía.

Þvingunaraðgerðir Bandaríkjanna hafa þegar leitt til þess að gengi íranska Ríalsins hefur hrunið og hefur verðbólga fjórfaldast sem hefur orsakað mótmæli í landinu og að erlendir fjárfestar hafa yfirgefið landið.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna Mike Pompeo tilkynnti að ekki yrði lengur veittar …
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna Mike Pompeo tilkynnti að ekki yrði lengur veittar undanþágur frá viðskiptabanni gegn Íran. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert