Fjölmargir flóðhestar drápust

Flóðhestar eiga í vök að verjast í Afríku.
Flóðhestar eiga í vök að verjast í Afríku. Af Wikipedia

Að minnsta kosti 28 flóðhestar fundust dauðir í þjóðgarði í Eþíópíu í gær. Enn er ekki vitað hvert banamein dýranna var en þjóðgarðsvörðurinn telur að þau hafi drepist á tímabilinu 14.-21 apríl.

Í frétt CNN um málið segir að atvikið hafi átt sér stað í Gibe Sheleko-þjóðgarðinum sem var stofnaður árið 2011. Hann er um 36 þúsund ferkílómetrar og í honum var að finna um 200 flóðhesta. 

Flóðhestar eru af Alþjóðadýraverndunarsjóðnum taldir viðkvæm tegund, þ.e. hætta steðjar að þeim og lönd þar sem þá er að finna ber að vernda þá. Talið er að um 115-130 þúsund flóðhestar séu nú í heiminum.

Flóðhestum stafar mest hætta af veiðiþjófum, sjúkdómum og þeirri staðreynd að stöðugt þrengir að búsvæðum þeirra. Veiðiþjófar ásælast tennur þeirra sem eru svo fluttar frá Afríku og til landa á borð við Hong Kong og Bandaríkjanna þar sem þær eru farnar að gegna sama hlutverki og fílstennur áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert