Biden gefur kost á sér í forsetakjöri

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, gefur kost á sér í …
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, gefur kost á sér í forvali demókrata fyrir forsetakjörið 2020. AFP

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að hann myndi gefa kost á sér í forvali demókrata í aðdraganda forsetakjörs í landinu. Biden hefur mælst hæstur í flestum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í aðdraganda forvalsins, þrátt fyrir að hafa ekki boðið sig fram formlega fyrr en nú. Samkvæmt könnun TheRealClearPolitics mælist Biden með 29,3% stuðning, en fast á hæla hans fylgir Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður demókrata, með 23%.

Biden er 76 ára gamall og er af mörgum talinn hafa mesta reynslu af stjórnmálum af þeim sem telja fjölmennan hóp demókrata sem sækjast eftir útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins.

Grunngildi Bandaríkjanna í húfi

Biden tilkynnti um framboð sitt í myndbandi sem hann deildi á Twitter í dag, en í færslu hans kom fram að hann gæti ekki staðið hjá og horft á Donald Trump Bandaríkjaforseta „breyta þjóðarandanum í grundvallaratriðum“.

„Grunngildi þjóðarinnar, staða okkar heiminum, lýðræðið okkar, allt sem Bandaríkin samanstanda af, er í húfi,“ skrifaði Biden á Twitter. „Af þessum sökum tilkynni ég í dag framboð mitt til forseta Bandaríkjanna,“ skrifaði hann.

Biden þykir alþýðlegur þrátt fyrir að hafa starfað í stjórnmálum í nærri hálfa öld. Hann er sagður þekkt stærð fyrir kjósendur sem eiga mikið verk fyrir höndum, að velja úr hópi tuttugu frambjóðenda í forvali demókrata. 

Nýlega hafa brestir birst í ímynd Biden, einkum vegna frétta af umdeildum samskiptum hans við konur í gegnum tíðina. Var hann m.a. sakaður um að hafa snert konur með ósæmilegum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert