Milljón tegundir í útrýmingarhættu

Þrír-fjórðu af öllu jarðlendi hafi tekið verulegum breytingum af mannavöldum.
Þrír-fjórðu af öllu jarðlendi hafi tekið verulegum breytingum af mannavöldum. NASA GOES PROJECT

Um milljón tegundir eru nú í útrýmingarhættu og kunna margar þeirra að vera útdauðar innan áratugar. Þetta kemur fram drögum að skýrslu sem margir af helstu vísindamönnum heims hafa unnið að undanfarin þrjú ár fyrir Sameinuðu þjóðirnar.

Guardian greinir frá þessu á vef sínum, en drögum að þessari 1.800 síðna skýrslu var lekið í fjölmiðilinn. Er skýrslan sögð sýna að okkar kynslóðir, náttúrulíf og komandi kynslóðir séu í hættu nema gripið verði til knýjandi aðgerða til að koma megi í veg fyrir að plöntur, skordýr og aðrar verur sem mannkyn reiðir sig á til matar, til frjóvgunar og fyrir hreint vatn og stöðugt loftslag verðu útdauðar.  

Að sögn Guardian er nú unnið að því að fínpússa orðalag skýrslunnar fyrir þingmenn fyrir fund sérfræðinga og fulltrúa ríkisstjórna sem hefst í París á mánudag. Robert Watson formaður IPBES,  vettvangs stjórnvalda og vísindastefnumótunar um líffjölbreytni og vistkerfi, segir helstu skilaboðin þó vera skýr.

Konur af arara-þjóðflokkinum í Brasilíu þvo hér þvott við árbakka …
Konur af arara-þjóðflokkinum í Brasilíu þvo hér þvott við árbakka í Amazon-regnskóginum. Hrun náttúrlífsins er m.a. rakin til umbreytingu skóglendis, votlendis og annarrar villtrar náttúru yfir í ræktarland, stíflur og borgarland. AFP

„Erum í vanda ef við gerum ekkert“

„Það er ekki spurning að við erum að tapa líffjölbreytni með verulega ósjálfbærum hraða, sem mun hafa áhrif á velferð bæði núverandi og komandi kynslóða,“ segir Watson. „Við erum í vanda ef við gerum ekkert og það  er fjöldi aðgerða sem hægt er að grípa til svo vernda megi náttúruna og mæta markmiðum mannkyns varðandi heilbrigði og þróun.“

Skýrslan er sú fyrsta sem birt er um líffjölbreytni í tæp 15 ár og vonast höfundar hennar til þess að hún muni varpa þeim vanda sem náttúran stendur frammi fyrir í kastljósið með sama hætti og skýrsla loftslagnefndar Sameinuðu þjóðanna um gerði á síðasta ári.

Líkt og fyrri skýrslur þá byggir þessi á samsetningu fjölda rannsókna sem ná yfir breitt svið, m.a. svifdýr í hafi, neðanjarðarbakteríur, hunangsflugur og grasafræði Amazon-regnskóganna. Skýrslan tekur í sama streng og fyrri rannsóknir um jörðin standi nú frammi fyrir sjöttu útrýmingarbylgjunni, en ólíkt þeim fimm fyrstu þá sé þessi af mannavöldum.

Hunangsflugan er ein þeirra dýrategunda sem talin er í vanda.
Hunangsflugan er ein þeirra dýrategunda sem talin er í vanda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enginn tími til að örvænta“

„Öll vistkerfi okkar eru í vanda,“ segir Mike Barrett, framkvæmdastjóri dýraverndunarsamtakanna World Wildlife Fund. „Þetta er ítarlegasta skýrsla um ástand umhverfisins og hún staðfestir með óyggjandi hættu hraða hnignun náttúrunnar.“

Sagði Barrett þetta fela í sér umhverfisneyðarástand fyrir mannkynið sem standi nú frammi fyrir þrefaldri ógn loftslagsbreytinga, náttúru og matvælaframleiðslu. „Það er enginn tími til að örvænta,“ sagði hann. „Við verðum að vera bjartsýn á að við höfum tækifæri til að gera eitthvað í þessu næstu tvö árin.“

Með því að fylla aftur upp í skurði sem grafnir …
Með því að fylla aftur upp í skurði sem grafnir voru til að þurrka upp mýrar má endurheimta votlendi. mbl.is/RAX

Næstu 18 mánuðir mikilvægir

Guardian segir skýrsluna, sem kynnt verður á mánudag, kynna mismunandi framtíðarsýn, allt eftir því hvaða ákvarðanir stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar muni taka. Eru næstu 18 mánuðir sagðir vera einkar mikilvægir af tvær stórar ráðstefnur þar sem leiðtogar heims eiga að koma sér saman um áætlun fyrir náttúruna og loftslagið verða  haldnar fyrir árslok 2020.

Watson, sem hefur verið í forsvari fyrir báðar helstu vísindanefndir Sameinuðu þjóðanna, segir skýrsluna kafa dýpra í hrun náttúrlífsins en áður hefur verið gert, en meðal helstu áhrifavalda þar er umbreyting skóglendis, votlendis og annarrar villtrar náttúru yfir í ræktarland, stíflur og borgarland. Einnig er bent á að þrír-fjórðu af öllu jarðlendi hafi tekið verulegum breytingum af mannavöldum og þá er mannkynið ennfremur sagt vera að ganga verulega á vistkerfin sem það reiðir sig á með útblæstri koltvísýrings og útbreiðslu  ágengra tegunda.

Að sögn Watson vonast skýrsluhöfundar til að ná nú til fleiri en hefðbundinna náttúruverndarsamtaka og umhverfisstofnanna. „Við þurfum að biðla til, ekki bara umhverfisráðherra heldur líka til þeirra sem fara með landbúnaðarmál, samgöngur og orku af því að það eru þeir sem bera ábyrgð á þeim sem keyra áfram tap líffjölbreytileikans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert