Sýkti 90 af HIV

Hreinar nálar eru gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla. Bæði fyrir þá …
Hreinar nálar eru gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla. Bæði fyrir þá sem nota vímuefni í æð sem og aðra sem þurfa á sprautum að halda. AFP

Pakistanskur læknir hefur verið handtekinn sakaður um að hafa smitað að minnsta kosti níutíu manns, þar af 65 börn, af HIV með því að nota óhreina sprautu í starfi.

Að sögn lögreglustjórans í Larkana, Kamran Nawaz, var læknirinn handtekinn í kjölfar kvartana frá heilbrigðisyfirvöldum. Læknirinn er sjálfur smitaður af HIV. Að sögn lögreglu kom málið fyrst til þeirra í síðustu viku þegar 18 börn úr sama úthverfi borgarinnar greindust smituð af HIV en veiran getur meðal annars valdið alnæmi. Í kjölfarið var ákveðið að fara í frekari skimanir og tugir einstaklinga í viðbót reyndust smitaðir.

Yfir 90 manns hafa nú greinst með HIV-smit og þar af eru um 65 börn, segir Abdul Rehaman, læknir og héraðslæknir í Larkana

Að sögn yfirvalda má rekja öll smitin til eins manns, læknis sem reyndist hafa notað óhreina sprautu á sjúklinga. Heilbrigðisráðherra í Sindh-ríki, Azra Pechuho, hefur staðfest handtökuna og að foreldrar barnanna sem eru smituð af HIV séu ekki smitaðir. 

Hingað til hefur HIV ekki verið algengt í Pakistan en það hefur verið að breytast að undanförnu. Eru það einkum vímuefnanotendur sem sprauta sig í æð, kynlífsstarfsmenn og farandverkamenn sem hafa snúið aftur heim eftir að hafa starfað í ríkjum við Persaflóann sem hafa greinst með HIV-smit.

Á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands segir

HIV er sú veira sem valdið getur alnæmi en eftir að fólk smitast brýtur veiran smátt og smátt niður ónæmiskerfi líkamans ef ekki koma til lyf sem duga. Í dag er raunin þó sú að mörg lyf eru komin á markaðinn sem haldið geta veirunni í skefjum. Lyfin hafa þó því miður ekki gagnast öllum, bæði vegna þess að sumir mynda óþol gegn þeim og eins geta fylgt þeim það miklar aukaverkanir að fólk á afar erfitt með að taka lyfin. En til allrar lukku er þessi hópur ekki stór og stöðugt er verið að þróa ný lyf. Það eru þó einungis smitaðir á Vesturlöndum sem hafa aðgang að þessum lyfjum. Enn deyja milljónir manna á ári hverju í þróunarlöndum af völdum veirunnar - en þetta fólk hefur ekki efni á dýrum eyðnilyfjum.

Alnæmi kallast það þegar HIV veirunni hefur tekist að brjóta ónæmiskerfi líkamans niður fyrir ákveðin viðmiðunarmörk, sem oftast er miðað við fjölda T-frumna líkamans (T-frumur eru hjálparfrumur, eins konar hornsteinar ónæmiskerfisins), en fari þær niður fyrir mælieininguna 200 er talað um að einstaklingurinn sé kominn með alnæmi.

Rætt er um að einstaklingur sé HIV jákvæður (hafi hann mælst með jákvæða svörun úr blóðprufu) eða með alnæmi eins og útskýrt var að framan. Svo er talað um alnæmi á lokastigi sem er þá lokastig sjúkdómsins og þegar svo er komið er lítið hægt að gera fyrir sjúklinginn. Sem betur fer er slíkt ástand orðið sjaldgæfara með tilkomu nýrra og bættra lyfjablandna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert