Auðga úran að nýju

AFP

Íran mun ekki lengur fylgja takmörkunum um auðgun úrans og eins verða birgðir af þungavatni auknar að nýju. Ekki sé lengur ástæða til þess að fylgja samkomulaginu sem gert var árið 2015 vegna þess að bandarísk yfirvöld ákváðu að draga sig út úr samkomulaginu.

Í dag er ár liðið frá því Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um að Bandaríkin myndu ekki lengur styðja samkomulagið. Í nóvember tilkynntu Bandaríkin að fyrri refsiaðgerðir gagnvart Íran tækju gildi að nýju. 

Kjarn­orku­sam­komu­lagið við Íran var und­ir­ritað árið 2015 og fel­ur í sér að dregið er úr refsiaðgerðum gegn Íran gegn því að þarlend stjórn­völd hætti til­raun­um til þess að koma sér upp kjarna­vopn­um tíma­bundið.

Með samningnum við Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland frá árinu 2015 skuldbatt klerkastjórnin í Íran sig til að takmarka verulega kjarnorkuáform sín gegn því að viðskiptaþvingunum gegn landinu yrði aflétt.

Stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Kína, Rússlandi og Þýskalandi lýstu því yfir að þau myndu standa við samninginn og hafa yfirvöld í Íran nú gefið þeim 60 daga til þess að gera það. 

Kjarnorkusamningurinn frá 2015 átti að tryggja að Íranar myndu þurfa að minnsta kosta eitt ár til að framleiða nógu mikið af auðguðu úrani til að geta búið til kjarnorkusprengju. Flestir sérfræðinganna telja að samningurinn hafi tryggt þetta þar sem hann skyldi Írana til að minnka birgðir sínar af auðguðu úrani um 98% og fækka um tvo þriðju skilvindum sem notaðar eru til að auðga úran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert