„Við viljum stjórna Istanbúl“

Ekrem Imamoglu á skrifstofu sinni í Istanbúl í dag.
Ekrem Imamoglu á skrifstofu sinni í Istanbúl í dag. AFP

Ekrem Imamoglu, sem hefur verið settur af sem borgarstjóri Istanbúl, segir í viðtali við AFP að hann muni leiða lýðræðisbyltingu fram til 23. júní, er borgarstjórakosningarnar í þessari stærstu borg Tyrklands verða endurteknar.

„Núna stöndum við í baráttu fyrir lýðræðinu,“ segir Imamoglu, en ákvörðun yfirkjörstjórnar Tyrklands um að endurtaka skuli kosningarnar sem fóru fram 31. mars síðastliðinn hefur verið gagnrýnd harðlega, innan lands og utan.

Imamoglu segir að dómaranna sjö sem tóku ákvörðun um að endurtaka bæri kosningarnar verði minnst með „svörtum bletti“ í sögunni.

„Ég vildi óska að þeir hefðu rækt skyldur sínar. Þeim láðist að gera það,“ sagði Imamoglu við blaðamann AFP á skrifstofu sinni í útjaðri Istanbúl.

„Þetta ber vitni um trú Tyrklands á lýðræðinu. Þessi þjóð …
„Þetta ber vitni um trú Tyrklands á lýðræðinu. Þessi þjóð er hrifin af frelsi sínu,“ segir Imamoglu um herferð á samfélagsmiðlum honum til stuðnings. Hér er mótmælandi með blys á götum Istanbúl í gær. AFP

Istanbúl er helsta viðskiptamiðstöð Tyrklands og langstærsta borg landsins, en þar búa um 15 milljónir manna. AKP, Réttlætis- og þróunarflokkur Recep Tayyip Erdogans Tyrklandsforseta, hafði stjórnað borginni um langt skeið og forsetinn neitaði frá fyrstu stundu að viðurkenna kosningaúrslitin, en um 14.000 atkvæðum munaði á Imamoglu og frambjóðanda AKP.

Þetta var í fyrsta sinn í aldarfjórðung sem stjórnarandstöðuflokkur hafði náð pólitískum völdum í Istanbúl, þar sem Erdogan sjálfur var eitt sinn borgarstjóri áður en hann reis til frekari metorða innan AKP-flokksins.

Tugþúsundir lögfræðinga munu koma CHP til aðstoðar

En hvernig ætlar CHP-flokkur Imamoglu að koma í veg fyrir að þær misfellur við framkvæmd kosninganna, sem yfirkjörstjórnin byggði niðurstöðu sína á, endurtaki sig ekki? Kjörstjórnin setti út á að ótil­greind­ur fjöldi manna sem störfuðu við kosn­ing­arn­ar hefðu ekki verið rík­is­starfs­menn og að und­ir­skrift­ir hefði vantað á ein­hverja taln­ing­ar­seðla.

„Við verðum að vera mjög varkár,“ sagði Imomoglu við því og bætti við að hundruð þúsunda stuðningsmanna hans myndu koma að ferlinu og að „þúsundir, tugir þúsunda lögfræðinga ekki bara frá Istanbúl heldur hvaðanæva að í Tyrklandi munu hjálpa til við ferlið með það að markmiði að gera engin mistök.“

Imamoglu sagði að tíminn verði að leiða í ljós hvort …
Imamoglu sagði að tíminn verði að leiða í ljós hvort að hann verði forseti Tyrklands, er blaðamaður AFP bar þær vangaveltur undir hann. AFP

Imamoglu hefur fengið gríðarlega mikinn stuðning á samfélagsmiðlum undanfarna daga, undir slagorðinu „Allt verður í fína lagi“, og hafa margir hæðst að Erdogan Tyrklandsforseta og orðum hans um að sú niðurstaða að láta endurtaka kosningarnar sé það besta í stöðunni, fyrir lýðræðið í landinu.

„Þetta ber vitni um trú Tyrklands á lýðræðinu. Þessi þjóð er hrifin af frelsi sínu,“ segir Imamoglu um samfélagsmiðlamótmælin.

Verra að tapa siðferðilegum yfirburðum en kosningum

Kergja hefur verið innan AKP-flokks forsetans vegna ákvörðunar yfirkjörstjórnarinnar og hafa áhrifamenn innan flokksins lagst á sveif með málstað CHP-flokksins.

Ahmet Davutoglu, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, sagði til dæmis á Twitter-síðu sinni í að gær að stærsta tapið fyrir stjórnmálahreyfingar væri ekki það að tapa kosningum, heldur að tapa siðferðislegum yfirburðum og samfélagslegri samvisku.

Imamoglu telur að koma verði í ljós með tíð og tíma hvort sú umræða, sem orðið hefur vegna ákvörðunar kjörstjórnarinnar um að endurtaka kosningarnar, muni verða honum byr undir báða vængi og mögulega greiða leið hans í forsetaembætti landsins.

„Markmið okkar núna er borgarstjórastóllinn í Istanbúl. Við viljum stjórna Istanbúl,“ segir Imamoglu.

„Við viljum taka til baka það sem við höfum þegar unnið.“

Frá fjöldamótmælum stuðningsmanna Imamoglu í Istanbúl í gær.
Frá fjöldamótmælum stuðningsmanna Imamoglu í Istanbúl í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert