Skemmdarverk í Aþenu

Mótmæli í Aþenu í gærkvöldi.
Mótmæli í Aþenu í gærkvöldi. AFP

Skemmdarverk voru unnin á heimili sendiherra Bandaríkjanna í Aþenu í nótt samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og sendiherranum, Geoffrey Pyatt.

Pyatt segir að þegar hann vaknaði í morgun hafi hann séð að barnaleg skemmdarverk hafi verið unnin við heimili hans og hann muni aðstoða lögreglu við að fanga þá sem þar voru að verki. Talið er að grískir öfgasinnaðir anarkistar hafi verið að verki.

„Eyðilegging eigna eru ekki friðsamleg mótmæli,“ skrifar Pyatt á Twitter í morgun.

Að sögn lögreglu kom tíu manna hópur fólks á vélhjólum að húsinu og kastaði málningu á húsið. Undanfarið hafa anarkistar framið svipuð skemmdarverk víðar en þeir eru að mótmæla fangelsun liðsmanns samtakanna. 

Dimitris Koufodinas, einn helsti baráttumaður samtakanna 17. nóvember, afplánar nú margfaldan lífstíðardóm en hann er í hungurverkfalli um þessar mundir eftir að beiðni hans um reynslulausn var hafnað.

17. nóvember gerði fjölmargar árásir á árunum 1975 til 2000 og kostuðu þær 23 manneskjur lífið. Þar á meðal yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar í Aþenu og nokkra gríska kaupsýslumenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert