Einn séns enn fyrir Brexit

Theresa May forsætisráðherra Bretlands sagði við þingmenn í dag að …
Theresa May forsætisráðherra Bretlands sagði við þingmenn í dag að þeir hefðu „einn séns enn“ til að koma Brexit til leiðar. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt þingmönnum þar að þeir hafi „einn séns enn“ til að koma Brexit til leiðar. Sá möguleiki sé falinn í nýjum samningi sem hún kynnir í upphafi júní.

Ef þingmenn samþykkja nýjan samning Bretlands við Evrópusambandið um útgöngu þess úr því, verður samningurinn í kjölfarið lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta verður fjórði samningurinn við ESB sem May leggur fyrir þingið. Hinum þremur hefur verið hafnað.

May hefur síðan síðasta samningi var hafnað átt í viðræðum við ESB um breytingar á samningnum, sem að sögn BBC felast í tryggingum á réttindum verkamanna, umhverfisverndaratriðum og fyrirvara um áfram opin landamæri í Írlandi. 

Ef þessum fjórða samningi verður hafnað, hefur May sagt að útganga Breta úr Evrópusambandinu á grundvelli samnings sé útilokuð. Og hugsanlega útganga Breta úr Evrópusambandinu yfir höfuð.

Þannig er þetta frumvarp að samningi sagt lokaatlaga May til þess að koma Brexit í gegn.

May er sjálf á móti því að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla en sagði í ræðu sinni í dag að hún skildi „einlægar“ tilfinningar fólks um að slíkt fái fram að ganga. Því myndu  þingmenn geta kosið um að fara í aðra atkvæðagreiðslu að samþykktu þessu frumvarpi um nýjan samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert