Heitir Indverjum bjartri framtíð

Narendra Modi flytur sigurræðu sína.
Narendra Modi flytur sigurræðu sína. AFP

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur heitið bjartri framtíð fyrir alla Indverja eftir stórsigur hindú-þjóðernissinnaða flokksins Bharatiya Janata, BJP, í þingkosningunum í landinu.

„Saman munum við vaxa. Saman munum við blómstra. Saman munum við búa til sterka indverska þjóð fyrir alla. Indland sigrar enn og aftur!“ tísti Modi á Twitter á sama tíma og stuðningsmenn BJP, sem hann leiðir, fögnuðu víða um landið.

„Ég er auðmjúkur gagvart trúnni sem er til staðar innan bandalagsins okkar og hún veitir okkur styrk til að leggja enn meira á okkur til að uppfylla vonir almennings,“ sagði hann, áður en hann mætti í höfuðstöðvar flokksins.

Samkvæmt síðustu tölum vann BJP 302 þingsæti af þeim 543 sem eru í boði í neðri deild þingsins.

Helsti andstæðingur flokksins, Congress með Rahul Gandhi í fararbroddi, hlaut aðeins 51 sæti. Til að bæta gráu ofan á svart viðurkenndi Gandhi að hafa misst Amethi, sem er sæti sem fjölskylda hans hefur haldið í langan tíma, til fyrrverandi sjónvarpsstjörnu sem bauð sig fram fyrir BJP.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert