Metupphæð í miskabætur

Geoffrey Rush árið 2017.
Geoffrey Rush árið 2017. AFP

Hollywood-leikaranum Geoffrey Rush hafa verið dæmdar um 250 milljónir króna í miskabætur eftir að hann vann ærumeiðingarmál gegn dagblaði í áströlsku borginni Sydney.

Honum voru m.a. dæmdar bæturnar vegna tekjumissis. 

Rush var sakaður um óviðeigandi kynferðislega hegun gagnvart kvenkyns mótleikkonu. Í forsíðugrein sem var birt í Daily Telegraph árið 2017 kom fram að leikhúsið Sydney Theatre Company hefði fengið kvörtun á sitt borð um að Rush hefði snert leikkonuna á óviðeigandi hátt en bæði fóru þau með hlutverk í Lé konungi.

Dómari í Sydney lýsti innihaldi greinarinnar sem „kæruleysislegri og ábyrgðarlausri æsifréttamennsku“.

Blaðið, sem er í eigu Rupert Murdoch, hafði áfrýjað upphaflegum úrskurði þar sem bæturnar voru lægri.

Að sögn dagblaðsins The Age er upphæðin sem leikarinn fær í miskabætur sú hæsta sem nokkur hefur fengið í Ástralíu.

Rush var kjörinn besti leikarinn á Óskarsverðlaununum árið 1997 fyrir hlutverk sitt í Shine. Hann hefur einnig unnið Golden Globe-, Emmy- og Tony-verðlaunin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert