Varar við hættunni af sólhlífum

Fyrir fjórum árum síðan var Bandaríkjamaðurinn Ed Quigley að fagna þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni á Bethany-ströndinni í Delaware-ríki þegar sólhlíf losnaði úr sandinum og lenti í vinstra auga hans.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að Quigley hafi ekki aðeins orðið fyrir meiðslum á auganu heldur hafi sólhlífin einnig valdið honum heilaskaða sem orðið hafi til þess að hann geti hvorki fundið lykt né bragð.

„Þegar ég fer á veitingahús panta ég bara það sem ég man að mér líkaði,“ segir Quigley í samtali við BBC. Frá því að hann varð fyrir slysinu hefur hann helgað sig því að vekja athygli fólks á hættunni sem stafar af sólhlífum.

„Ég var ómeðvitaður um hættuna áður en ég lenti í slysinu,“ segir Quigley ennfremur. Frá því að hann varð fyrir sólhlífinni hafi hann komist að því að mörg þúsund slys af þessu tagi eigi sér stað á hverju ári og flest séu ekki tilkynnt.

Þá segir í frétt BBC að á tímabilinu 2008-2017 hafi um 31 þúsund manns þurft að leita á sjúkrahús í Bandaríkjunum vegna meiðsla tengdum sólhlífum. Ennfremur sé vitað um eitt dauðsfall af þessum sökum en 2016 lést kona í strandbænum Virginia Beach í Bandaríkjunum eftir að hafa orðið fyrir sólhlíf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert