Fjölskyldan fær milljarð í bætur

Fangelsi. Mynd úr safni.
Fangelsi. Mynd úr safni. AFP

Fjölskylda bandarísks manns sem lést vegna ofþornunar í fangelsi fær tæpan milljarð króna í bætur frá Milwaukee-sýslu í Bandaríkjunum og einkafyrirtæki sem veitti föngunum heilbrigðisþjónustu.

Terrill Thomas, 38 ára, fannst látinn í fangaklefa sínum í fangelsinu í Milwaukee-sýslu í ríkinu Wisconsin árið 2016, sjö dögum eftir að fangaverðir bönnuðu honum að fá vatn að drekka í refsingarskyni, að sögn BBC

Síðar var úrskurðað að hann hafi dáið af völdum „mikillar ofþornunar“ og að um manndráp hafi verið að ræða.

Lögmenn Thomas segja upphæðina eina þá mestu sem hefur verið greidd vegna dauðsfalls í fangelsi.

„Þessi sáttagreiðsla endurspeglar ekki bara þá miklu sorg vegna láts Thomas heldur einnig hversu hneykslanlegt það er að hann hafi ekki fengið vatn og að öll augljós merki um neyð hans hafi í framhaldinu verið hunsuð, enda lést hann úr þorsta,“ sögðu lögmenn hans í sameiginlegri yfirlýsingu.

Milljarðinum verður skipt á milli sex barna Thomas. Hann var handtekinn í apríl 2016 fyrir að hafa hleypt af skoti úr byssu inni í spilavíti.

Að sögn lögfræðinga hans þjáðist hann af geðhvarfasýki og átti við mikla andlega erfiðleika að stríða þegar hann var fangelsaður.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert