Takmarka reykingar á almannafæri

Þessi hegðun mun ekki líðast í Svíþjóð frá og með …
Þessi hegðun mun ekki líðast í Svíþjóð frá og með 1. júlí. AFP

Ný og strangari tóbakslög taka gildi í Svíþjóð 1. júlí. Með lögunum verður óheimilt að reykja víðsvegar á almannafæri, svo sem á útisvæðum kaffi- og veitingahúsa, leikvöllum, íþróttasvæðum, í strætóskýlum og utan við verslanir, fyrirtæki og aðrar byggingar þar sem þjónusta er veitt.

Nýju lögin, sem taka einnig til rafsígaretta, eru liður í tóbaksáætlun sænskra stjórnvalda þar sem stefnt er að því að hlutfall dagreykingamanna í Svíþjóð verði innan við fimm prósent árið 2025. Hlutfallið er í dag tíu prósent, álíka og hérlendis, og er með því lægsta sem gerist í heiminum.

„Við viljum „afnormalísera“ reykingar í samfélaginu,“ hefur sænska ríkisútvarpið eftir Anniku Strandhäll félagsmálaráðherra. Hún segist handviss um að hin nýju lög muni venjast á stuttum tíma og komi til með að þykja sjálfsögð þegar litið verður í baksýnisspegilinn.

Engin viðurlög eru við reykingabanninu, svo fremi sem reykingamaðurinn verði við beiðni starfsmanns eða lögreglu um að drepa í sígarettunni. Geri hann það ekki má hann hins vegar eiga von á sektum.

Snusið heldur velli

Í upphaflegum tillögum stjórnvalda stóð til að herða á reglum um munntóbak, sem Svíar nefna snus. Átti að banna auglýsingar á snusi, sjálfsala í verslunum sem selja snus, og gera verslunum skylt að fela dollurnar á bak við kassann, líkt og gildir um sígarettur. Þær tillögur náðu þó ekki fram að ganga vegna andstöðu þingminnihlutans.

Snusið nýtur feikivinsælda í Svíþjóð og fékk landið raunar undanþágu við aðild að Evrópusambandinu frá Evróplögum, sem banna tóbakið, vegna þess sess sem það skipar í sænskri menningu. 

Í umræðum á þinginu héldu fulltrúar stjórnarandstöðunnar því fram að snusið ætti sinn þátt í því að jafnfáir Svíar reyki og raun ber vitni; það sé gott úrræði fyrir þá sem vilja drepa í og mætti ekki þrengja um of að þeim valkosti.

Sænskt snus.
Sænskt snus. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert