Að minnsta kosti 7 látnir og 21 saknað

Lögreglan rannsakar tildrög slyssins.
Lögreglan rannsakar tildrög slyssins. AFP

Að minnsta kosti sjö kóreskir ferðamenn eru látnir og 21 er saknað eftir að skemmti­bát hvolfdi og hann sökk í Dóná í Búdapest, höfuðborg Ung­verja­lands. Slysið varð í gærkvöldi skammt frá þing­húsi lands­ins í hjarta borg­ar­inn­ar eft­ir að bát­ur­inn hafði rek­ist á ann­an bát.

Alls voru 33 kóreskir ferðamenn um borð í bátnum og var sá yngsti sex ára gömul stúlka. Þetta staðfesta kóresk yfirvöld. Auk ferðamannanna voru tveir Ungverjar í áhöfn bátsins. Alls voru því 35 um borð í bátnum þegar hann hvolfdi. 

„Sjö manns voru flutt á sjúkrahúsið með ofkælingu og í áfalli en ástand þeirra er stöðugt,“ segir Pal Gyorfi talsmaður sjúkrahússins.  

Lögreglan slæðir alla ána niður í átt að suðri þar sem slysið varð. Kafarar og leitarbátar voru að stöfum í alla nótt og verða áfram. Hópur kvikmyndagerðarfólks var við störf við árbakkann þegar slysið varð. Aðstoðaði það við leitina með því að beina sterkum ljósum niður í ána. 

Leitað var í alla nótt.
Leitað var í alla nótt. AFP

 

Aðstæður til leitar voru erfiðar í gær, mikil rigning og myrkur. Áin er vatnsmikil og ákaflega straumhörð en frá byrjun maí hefur rignt talsvert. Hiti árinnar er á bilinu 10 til 15 gráður. 

Eigandi bátsins segir hann hafa staðist alla öryggisstaðla og verið með skoðun. „Þetta var venjuleg útsýnissigling,“ segir Mihaly Toth talsmaður eiganda bátsins. 

Rannsókn er hafin á tildrögum slyssins en vitni segja að bátana tvo hafa skollið saman. 

Kóresk yfirvöld hyggjast senda 18 starfsmenn á vettvang til aðstoðar við leitina. Þau hafa jafnframt farið fram á að yfirvöld í Búdapest geri allt sem í þeirra valdi standi til að leita að fólkinu.    

Báturinn var 26 metra langur og var kallaður Hafmeyjan. 

Kóreskir ferðmenn voru um borð í bátnum.
Kóreskir ferðmenn voru um borð í bátnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert