Lítil von að finna einhverja á lífi

Óttast er að 28 séu látnir eftir að skemmti­bát hvolfdi og hann sökk í Dóná í Búdapest, höfuðborg Ung­verja­lands. Frá þessu greinir norska ríkisútvarpið NRK og segir skemmtisnekkju í eigu norsks fyrirtækis hafa átt þátt í slysinu. Norska snekkjan nefnist Viking Sigyn og varð slysið í gær­kvöldi skammt frá þing­húsi lands­ins.

Greint var frá því fyrr í dag að að minnsta kosti sjö kór­esk­ir ferðamenn hefðu farist, en að 21 til viðbótar væri saknað.  Reuters-fréttastofan hefur eftir björgunarmönnum í Búdapest að lítil von sé á að einhver finnist á lífi úr þessu, en alls voru 33 kór­esk­ir ferðamenn um borð í bátn­um. Yngsti farþeginn var sex ára göm­ul stúlka. Auk ferðamann­anna voru tveir Ung­verj­ar í áhöfn báts­ins. Alls voru því 35 um borð í bátn­um þegar hann hvolfdi og voru sjö fluttir á sjúkra­húsið með of­kæl­ingu og í áfalli, en ástand þeirra var þó talið stöðugt. 

„Ég myndi ekki segja að það væri engin von, en það eru litlar líkur á að finna einhverja á lífi,“ sagði Pal Gyorfi hjá sjúkraflutningum landsins í samtali við M1, ríkissjónvarp Ungverjalands.

„Það er ekki bara vegna hitastigs vatnsins, heldur líka vegna þess hve sterkir straumar eru í ánni, mistursins við vatnsyfirborðið og svo vegna fatnaðar fólksins sem féll fyrir borð,“ bætti hann við.

Að sögn lögreglu sökk báturinn á nokkrum sekúndum eftir að hann fór á hliðina og er málið nú til rannsóknar hjá lögreglu sem mögulegur glæpur, en lögregla kannar m.a. hvort norska snekkjan, hafi sent hjálparbeiðni eftir áreksturinn. Segir Reuters Viking Sigyn vera 135 metra á lengd, en Hafmeyjan, báturinn sem hvolfdi, var ekki nema 26 metrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert