Fengu ekki að loka læknastöðinni

Dómari kom í dag í veg fyrir að yfirvöld í Missouri lokuðu einu læknastöðinni í ríkinu sem framkvæmir þungunarrof.  Hefði stöðinni verið lokað, þá hefði Missouri verið fyrst ríkja í Bandaríkjunum í tæpa hálfa öld þar sem enginn slík stöð væri starfrækt.

BBC segir læknastöðina Planned Parenthood hafa farið með málið fyrir dómara. Til stóð að loka læknastöðinni í dag þar sem heilbrigðisyfirvöld í ríkinu höfðu neitað að endurnýja starfsleyfi hennar á grundvelli þess að búnaði væri ábótavant.

Undanfarið hefur fjöldi ríkja í Bandaríkjunum samþykkt lög sem banna þungunarrof og fyrr í þessari viku lýstu heilbrigðisyfirvöld í Missouri yfir „viðvarandi áhyggjum“ af læknastöðinni í kjölfar árlegrar úttektar.

Planned Parenthood segja ásakanirnar hins vegar eiga sér pólitískar rætur. „Þetta er enginn æfing,“ sagði  dr. Leana Wen, forstjóri stöðvarinnar. „Þetta er enginn viðvörun. Þetta er raunverulegt lýðheilsuhættuástand.“

Án læknastöðvarinnar hafi yfir milljón konur á barnseignaraldri í Missouri ekki lengur aðgang að læknastöð í ríkinu sem þær búa í, sem veiti þjónustu vegna þungunarrofs. 

Bann dómara í dag er eingöngu tímabundið og tapi Planned Parenthood málinu kann Missouri að verða fyrst ríkja í Bandaríkjunum frá árinu 1973 þar sem engin læknastöð hefur leyfi til að framkvæma þungunarrof, en það ár úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna að bandarískar konur hefðu rétt á að fara í þungunarrof.

Lagadeilan kemur í kjölfar þess að Mike Parson, ríkisstjóri Missouri , samþykkti lög sem banna þungunarrof sé fóstrið eldri en átta vikna. Ekki er gerð nein undantekning á þessu þó um nauðgun eða sifjaspell sé  að ræða.

Þá samþykkti þingið í Louisiana í gær bann við þungunarrofi  um leið og hjartsláttur fósturs er mælanlegur. Sambærilegt bann hefur þegar verið staðfest í Georgíu, Kentucky, Ohio og Mississippi, en í Alabama hefur blátt bann verið lagt við þungunarrofi í nær öllum tilfellum. Í engu þessara ríkja hafa lögin hins vegar enn tekið gildi.

Stuðningsmenn og starfsfólk læknastöðvarinnar fagna úrskurði dómarans. Læknastöðin er sú …
Stuðningsmenn og starfsfólk læknastöðvarinnar fagna úrskurði dómarans. Læknastöðin er sú eina í Missouri-ríki sem framkvæmir þungunarrof. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert