Svört kona í herberginu

Atlantique er fyrsta kvikmynd Mati Diop í fullri lengd.
Atlantique er fyrsta kvikmynd Mati Diop í fullri lengd. AFP

Fransk-senegalska kvikmyndagerðarkonan Mati Diop segir að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar hún las það í viðtali að hún væri fyrsta svarta konan sem tæki þátt í keppninni í Cannes um kvikmyndaverðlaun hátíðarinnar. Hátíðin var haldin fyrr í mánuðinum og er þetta í 72. skiptið sem hún er haldin.

Mati Diop segir að hún hafi ekki gert sér grein fyrir þessu. „Mín fyrstu viðbrögð voru þau að mér fannst þetta virkilega sorgleg staðreynd. Það er því löng leið fram undan áður en sá ósköp eðlilegi og sjálfsagði hlutur þyki ekki fréttnæmur, staðreyndin um að ég er svört kona,“ sagði Diop í viðtali við Washington Post. Viðtalið var tekið áður en ljóst var að Diop hefði hlotið Grand Prix-verðlaunin á hátíðinni sem eru talin jafngilda silfurverðlaunum. Þau hlaut Diop fyrir Atlantics, dramatíska kvikmynd um unga Senegala sem yfirgefa land sitt í leit að betra lífi. 

Leikstjórinn Mati Diop í Cannes.
Leikstjórinn Mati Diop í Cannes. AFP

Mati Diop, sem er 36 ára gömul, ólst upp í Frakklandi en fjölskylda hennar kemur frá Senegal. Margir í fjölskyldunni hafa getið sér gott orð í listalífinu, þar á meðal leikstjórinn frægi Djibril Diop Mambety en hann var föðurbróðir hennar. Faðir Diop, tónlistarmaðurinn Wasis Diop er einnig þekktur fyrir tónlist sína í Frakklandi sem og Senegal. 

Að sögn Diop kviknaði hugmyndin að Atlantics þegar hún var að gera stuttmynd í Senegal fyrir áratug. Hvað það er sem fær Afríkubúa til þess að flýja heimsálfuna. „Ég var í Dakar um tíma og festist í vangaveltum um þennan flókna og um leið viðkvæma veruleika sem við nefnum ólöglega fólksflutninga úr landi,“ segir hún. 

Þegar hún lauk við stuttmyndina var hún enn með hugann hjá fólki sem tekur ákvörðun um að yfirgefa heimkynni sín. Hugmyndin var að segja sögu ungs fólks sem hverfur í hafið og segja þessa sögu með augum ungrar konu. 

Leikarinn Amadou Mbow, Mati Diop og leikkonurnar Mama Sane og …
Leikarinn Amadou Mbow, Mati Diop og leikkonurnar Mama Sane og Nicole Sougou á frumsýningu myndarinnar í Cannes. Leikararnir eru allir frá Senegal. AFP

Diop ákvað að segja sögu Rómeó og Júlíu, sögu af ungu ástföngnu fólki en um leið með ósköp eðlilegri framvindu.

Gagnrýnendur halda vart vatni yfir ljóðrænni nálgun leikstjórans. Ljóðrænum og um leið óþægilegum staðreyndum sem fanga áhorfandann strax á fyrstu mínútu. Ada er helsta persóna myndarinnar. Ada ólst upp í fátækrahverfi Dakar og foreldrar hennar voru búnir að  tryggja henni hjónaband með ungum vellauðugum manni. En Ada var ástfangin af Souleiman, verkamanni sem hafði verið svikinn um laun af spilltum verktaka. Souleiman og vinnufélagar hans ákveða að framtíðin búi ekki í Dakar heldur í Evrópu og halda af stað yfir Atlantshafið. 

Fréttir af því að báturinn hafi sokkið og allir um borð farist berast til Dakar en Ada getur ekki og vill ekki trúa því að Souleiman sé látinn. Upp úr þurru fara vinir hennar að sjá hann út um allt í Dakar og Ada fær dularfull SMS í síma sinn. Fólk í kringum hana veikist og fær háan hita og húð þess hvítnar. Í ljós kemur að sálir hinna framliðnu ganga aftur og Souleiman snýr aftur í líkama lögreglumanns. Kannski ekkert nýtt hér á ferðinni - hver man ekki eftir kvikmyndinni Ghost? En það sem er öðruvísi er að í fyrra drukknuðu um 2.300 flóttamenn á leið til Evrópu þannig að myndin hefur siðferðislegan boðskap að færa. 

Mama Sane fer með hlutverk Ödu.
Mama Sane fer með hlutverk Ödu. AFP

Að sögn Diop gerði það vinnu hennar auðveldari að persónan Ada öðlast nýja vídd í þessum hörmulegu aðstæðum sem eru allt í kringum hana. 

Af 21 mynd sem var tilnefnd til Gullpálmans á kvikmyndahátíðinni í Cannes í ár var aðeins fjórum leikstýrt af konum. Diop segir nauðsynlegt að kvikmyndir endurspegli betur raunveruleikann en þær geri. Að það sjáist fólk á skjánum sem fólk geti tengt við. Það verði ekki gert nema fleiri sem líta svipað út og hún séu á bak við tökuvélarnar og segi nýjar sögur. 

 „Sem svört kona sakna ég þess að sjá ekki svörtu fólki bregða fyrir í kvikmyndum og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég gerði þessa mynd. Ég varð að sjá svart fólk á skjánum, marga og úti um allt,“ segir hún og hlær. 

„Þetta er líka eitthvað nýtt og ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin tilfinningum sem ég finn þegar ég fer á mynd Jordan Peele,“ segir Diop og vísar þar til Óskarsverðlaunahafans sem meðal annars hefur gert myndir eins og BlacKkKlansman, Get Out og Us.

Diop segir að hún standi sig jafnvel að því að telja hversu margt svart fólk er í herberginu, er svört kona í herberginu?

Mati Diop svarar hér spurningum blaðamanna við frumsýningu Atlantics (Atlantique) …
Mati Diop svarar hér spurningum blaðamanna við frumsýningu Atlantics (Atlantique) í Cannes. AFP

Hún segir að kvikmyndahátíðin í Cannes hafi það sem þurfi til þess að breyta kvikmyndaiðnaðinum en hátíðin er sú stærsta í heimi, að brjóta niður múra fyrir hópa sem hingað til hafa verið útilokaðir. „Vonandi verður það algengara og þyki eðlilegt að fleiri svartir leikarar séu í aðalhlutverkum. Inshallah (með Guðs vilja),“ segir hún. 

Mati Diop er fædd í París 22. júní 1982 og býr þar enn. Móðir hennar er frönsk en faðir hennar er eins og áður sagði frá Senegal. Eftir skilnað þeirra fór móðir hennar, sem er hvít, oft með Mati til Senegal svo hún myndi ekki missa tengslin við fjölskyldu sína í Afríku. „Ég veit hvaðan ég kem ólíkt mörgum þeirra sem eru af blönduðum uppruna.“

Eftir menntaskóla kom Diop víða við á vinnumarkaði, vann meðal annars sem þjónn og við hljóðvinnslu í leikhúsi. Hún fór einnig að fóta sig í gerð stuttmynda. Það leiddi hana inn í listaháskóla en hún stoppaði stutt við því þegar henni bauðst hlutverk í kvikmynd Claire Denis, 35 Shots of Rum, árið 2008 hætti hún námi. 

Að sögn Diop var hún mjög hrifin af störfum Denis og eftir að hafa unnið með henni var ekki aftur snúið. „Ég gat tengt mig við hana og það var að vinna við kvikmyndagerð sem kona. Ég sá mig algjörlega í þeim sporum.“

Ibrahima Traore fer með hlutverk Souleiman.
Ibrahima Traore fer með hlutverk Souleiman. AFP

Diop fór með hlutverk dóttur svarts manns í myndinni og segir hún að það hafi verið áminning til hennar um að hún væri sjálf svört. Á þeim tíma var allt í umhverfi hennar franskt - eðlilega enda bjó hún þar, en um leið mjög hvítt. „Flestir vina minna voru hvítir og ég hlustaði mest á mjög hvíta tónlist, aðallega rokk og án þess að gera mér grein fyrir því var ég að missa tengslin við afrískan uppruna minn,“ segir Diop og bætir við að þetta hafi verið algjörlega ómeðvitað en um leið afar auðvelt í Frakklandi. 

Eða líkt og hún bendir á: „Ég er frönsk og ég er ekki meira svört en hvít. Ég er frönsk.“

Atlantics er fyrsta leikna kvikmynd Mati Diop í fullri lengd en hún á fimm stuttmyndir að baki. Eins og hér kom fram að framan er ein þeirra grunnurinn að Atlantics, sem hún gerði árið 2009. Á þeim tíma voru gríðarlega margir Senegalar að flýja til Spánar. Flestir þeirra voru ungmenni sem jafnvel hurfu á leiðinni eða eftir komuna til Evrópu. Hún segir að hennar draumur hafi verið að ljúka þessari sögu af lífi ungs fólks í Senegal og það hafi hún gert í nýju myndinni. 

Byggt á fréttum New York Times, Washington Post, AFP, Huffington Post, BBC, Guardian, Le Monde, Le Parisien o.fl.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert