Var í neyslutengdu geðrofi

Síðasta sjálfan. Þessi sjálfa Sunnivu Ødegård heitinnar var hennar hinsta, …
Síðasta sjálfan. Þessi sjálfa Sunnivu Ødegård heitinnar var hennar hinsta, en myndina tók hún að kvöldi 29. júlí í fyrra, þegar hún átti aðeins örfáar klukkustundir eftir ólifað. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Mögulegt verður að teljast að [ákærði] hafi verið í neyslutengdu geðrofi sem síðar hafi þróast út í geðveikisástand á borð við geðklofa.“

Þetta er niðurstaða dr. Anders Hartwig yfirlæknis og geðlæknanna Tor Ketil Larsen og Dan Tungland sem komu fyrir Héraðsdóm Jæren í morgun og lögðu þar fram mat sitt á geðrænu sakhæfi 18 ára gamals manns sem ákærður er fyrir að verða hinni 13 ára gömlu Sunnivu Ødegård að bana með hrottalegum hætti í smábænum Varhaug í Rogaland á vesturströnd Noregs aðfaranótt 30. júlí í fyrra.

Komust læknarnir þar með að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi verið meðvitaður um gerðir sínar (n. tilregnelig) á verknaðarstundu, en neyslutengt geðrof telst í skilningi norsks refsiréttar vitundarskerðing (n. bevissthetsforstyrrelse), en ekki fullkomið geðveikisástand sem tækt teldist sem ábyrgðarleysisástæða við manndráp.

Héraðsdómari á lokaorðið

Álit þeirra Hartwig, Larsen og Tungland er þó ekkert meira en það; álit. Það er Gunn Elin Lode héraðsdómari og meðdómendur hennar sem eiga lokaorðið um hvernig rétturinn metur andlegt ástand ákærða á verknaðarstundu, mat sem mun hafa afgerandi áhrif á refsivistarúrræði dómsins.

Vitnisburður geðlæknanna stóð yfir nánast allan morguninn og þráspurði Tor Inge Borgersen, verjandi ógæfumannsins unga, læknana hvort þeir gætu án minnsta vafa slegið því föstu að ákærði hafi ekki þjáðst af hvoru tveggja samtímis, neyslutengdu geðrofi og geðrofi sem ekki væri sprottið af neyslu á því augnabliki sem hann drýgði ódáð sína. Slíkt töldu geðlæknarnir útilokað, en vitað er að ákærði hafði verið í langvarandi neyslu e-taflna og kannabisefna dagana fyrir atlöguna að Sunnivu auk þess sem hann hefur sjálfur greint réttinum frá miklum kvíða sínum og þráhyggju sem meðal annars hafi komið fram í því að hann taldi aðra geta lesið hugsanir hans.

Ekki hefur niðurstaða Larsen og Tungland þó verið óumdeild. Eftirlitsstofnun í réttargeðlæknisfræði (n. Den rettsmedisinske kommisjon (DRK)) setti í dag fram þá gagnrýni að læknarnir hefðu reitt sig fullmikið á eigin útskýringar ákærða á ástandi hans auk þess sem engan veginn sé hafið yfir vafa að ákærði hafi yfirhöfuð verið í geðrofsástandi þegar hann framdi verknaðinn, neyslutengdu eða öðru.

Hvika ekki frá mati sínu

Í kjölfar athugasemda stofnunarinnar sendu Larsen og Tungland frá sér viðbótaryfirlýsingu þar sem þeir kveðast ekki sjá ástæðu til að hvika frá mati sínu. Segjast þeir hafa átt mun fleiri samtöl við ákærða en venjan sé í sambærilegum matsmálum. „Hugmyndin um að um hafi verið að ræða neyslutengt geðrof sem síðar þróaðist yfir í grunngeðrof (n. grunnpsykose) er byggð á því að viðfangsefnið hafi verið laust við geðrof áður en það hóf fíkniefnaneyslu,“ segir í lokasvari læknanna.

Héraðsdómur Jæren í Sandnes í Rogaland þar sem áttundi dagur …
Héraðsdómur Jæren í Sandnes í Rogaland þar sem áttundi dagur aðalmeðferðar Varhaug-málsins fór fram í dag. Ljósmynd/Wikipedia.org/J. Ådnanes

Ákæruvaldið, Nina Grande saksóknari, íhugar að krefjast varðveisludóms (n. forvaring) yfir ákærða, sem er sama réttarúrræði og beitt var gegn Anders Breivik og felur í sér að framlengja megi refsivist hins dæmda að lokinni ákveðinni lágmarksafplánun svo lengi sem hætta sé talin á endurtekinni háttsemi. Var mats geðlæknanna sérstaklega óskað um þetta atriði.

Tungland segir geðlæknunum erfitt að spá nokkru um hvort líklegt sé að ákærði muni á ný gerast hættulegur umhverfi sínu. „Okkur sýnist vafi leika á því hvort hann aðhyllist (n. forherliger) gróft ofbeldi. Hann tjáir sig mjög takmarkað um það og því erfitt að spá nokkru um það atriði.

Sætti sex vikna geðrannsókn

„Í þessu máli hefur verið rætt um hugsanalestur,“ sagði Larsen fyrir réttinum í dag, „að aðrir geti lesið hugsanir hans. Að mínu viti er þar á ferð dæmigert geðrofseinkenni. Ég met það svo að þetta sé ástand sem ákærði hefur upplifað.“

Ákærði sætti sex vikna geðrannsókn við Sandviken-sjúkrahúsið í Bergen í október og nóvember í fyrra þar sem teymi tveggja geðlækna og átta hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða kom að geðmati hans. Metur Tungland greindarvísitölu hans um 80 stig, en árið 2014 hafði hún verið metin 70 – 75 stig sem telst á mörkum greindarskerðingar (e. borderline impaired).

Framhald málsins fyrir héraði veltur nú á því hvort dómurinn fallist á það mat geðlæknanna að ákærði hafi verið meðvitaður um gjörðir sínar 30. júlí í fyrra og hvort, og þá að hve miklu leyti, hætta sé á að ákærði gerist á ný sekur um slíka háttsemi. Verður það þungavigtaratriði í dómi héraðsdóms, hvort ákærði sæti venjulegri fangelsisrefsingu eða varðveislu sem gæti kostað hann mun lengri tíma bak við lás og slá.

NRK

VG

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert