Breyta hættuflokkun kjarnorkuúrgangs

Savannah River Plant verksmiðjan í Suður-Karólínuríki er einn þeirra staða …
Savannah River Plant verksmiðjan í Suður-Karólínuríki er einn þeirra staða sem notaðir voru til kjarnavopnaframleiðslu í síðari heimstyrjöldinni og kalda stríðinu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bandarísk stjórnvöld ætla að endurflokka hluta af hættulegasta geislavirka úrgangi landsins og færa hann niður í lægri öryggisflokk til að spara fé. Guardian greinir frá þessu og segir gagnrýnendur vera ævareiða yfir málinu, sem felur í sér að auðveldar og ódýrara verður að hætta hreinsun á svæðum sem notuð voru til kjarnavopnaframleiðslu í Washington-ríki, Idaho og Suður-Karólínu.

Bandaríska orkustofnunin greindi frá því í gær að með því að merkja hluta þess geislavirka úrgangs sem í dag fellur í hæsta öryggisflokk sem minni ógn þá sparist 40 milljónir dollara í hreinsunarkostnað. Úrgangurinn sem um ræðir og sem hefur sl. þrjá áratugi verið geymdur á framleiðslustöðunum í ríkjunum þremur, en yrði í kjölfarið fluttur í förgunarstöð í Utah eða Texas sem taka á móti úrgangi í lægri öryggisflokki.

„Þessi stjórn leggur til ábyrga, árangursmiðaða lausn sem mun loksins opna á mögulegar leiðir til þess að fjarlægja með öruggum hætti hættuminni úrgang,“ hefur Guardian eftir Paul Dabber, aðstoðarráðherra í orkumálaráðuneytinu. „Þetta mun hraða hreinsun og draga úr hættu.“

Sagði hann orkustofnunina munu viðhalda þeim stöðlum sem stjórnarnefnd kjarnorkumála í Bandaríkjunum, NRC hafi sett, „með það að markmiði að koma hættuminni úrgangi á brott úr ríkjunum án þess að fórna almannaöryggi.

Jay Inslee, ríkisstjóri Washington sem jafnframt er í hópi forsetaframbjóðenda …
Jay Inslee, ríkisstjóri Washington sem jafnframt er í hópi forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins, segir stjórn Trump sýna yfirvöldum í ríkinu fyrirlitningu og vanvirðingu. AFP

Mengaðasta kjarnorkusvæðið í öllum Bandaríkjunum

Gagnrýnendur segja alríkisyfirvöld með þessu hins vegar ekki sinna þeirri skyldu sinni að hreinsa almennilega upp það mikla magn geislavirks úrgangs sem hafi verið skilinn eftir á framleiðslustöðum kjarnavopna í heimstyrjöldinni síðari og kalda stríðinu.

Úrgangurinn er í dag geymdur í Savannah River Plant verksmiðjunni í Suður-Karólínuríki, National Laboratory í Idaho og Hanford Nuclear Reservation í Washington-ríki, en síðastnefndi staðurinn telst mengaðasta kjarnorkusvæðið í öllum Bandaríkjunum.

Jay Inslee, ríkisstjóri Washington sem jafnframt er í hópi forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins, og Bob Ferguson ríkissaksóknari Washington segja stjórn Trump sýna yfirvöldum í ríkinu fyrirlitningu og vanvirðingu.

„Washington mun ekki vera sett á hliðarlínuna með tilraunum okkar til að hreinsa upp Hanford og vernda Columbia ánna og heilsu og öryggi ríkisins og íbúa þess,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu Inslee og Ferguson.

Hanford Nuclear Reservation svæðið í Washington-ríki, geymir um 60% af …
Hanford Nuclear Reservation svæðið í Washington-ríki, geymir um 60% af hættulegasta geislavirka úrgangi Bandaríkjanna. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þarf ekki lengur að grafa geislavirkasta úrganginn í jörðu

Nýja reglugerðin heimilar orkustofnuninni að skilja eftir geymslutanka sem geyma meira en 387 lítra af geislavirkum úrgangi í ríkjunum. Það felur í sér að sögn umhverfisverndarsamtakanna Natural Resources Defense Council að ekki þarf lengur að grafa djúpt í jörðu hluta af „eitraðasta og geislavirkasta úrgangi í heimi“.

„Að halda því fram að þessi úrgangur sé ekki hættulegur er óábyrgt og svívirðilegt,“ hefur Guardian eftir Geoff Fettus lögfræðingi samtakanna.

Tom Clements hjá eftirlitssamtökunum Savannah River Site Watch, sem fylgjast með kjarnorkuframleiðslustöðunum í Suður-Karólínu sagði endurskilgreiningu  á úrganginum vera „sparnaðaraðgerð hönnuð til að losna við þúsundir gáma af hættulegasta úrganginum  af svæðinu“. Sagði hann áætlunina um að flytja úrganginn til Utah eða Texas vera slæma hugmynd sem feli í sér að hann verði grafinn grunnt.

Áratuga tafir og milljarða dollara kostnaður

Orkustofnunin segir staðlana sem notaðir eru við skilgreiningu geislavirkni úrgangs vera gamla. Önnur ríki byggi á stöðum um eðlislæga geislavirkni ekki framleiðsluaðferð efnanna líkt og þarna hafi verið gert. Þess vegna hafi til að mynda allur úrgangur vegna plútoníumframleiðslu í Hanford verið skilgreindur í hættulegasta flokki.

Þessi „ein stærð passar öllum aðferð hafi leitt til áratuga tafa, milljarða dollara kostnaðar“ og þess að úrgangurinn sé fastur í mannvirkjum í eigu varnarmálaráðuneytisins í Suður-Karólínu, Washington og Idaho án varanlegra förgunarmöguleika,“ að því er segir í svörum stofnunarinnar.

Aðstaðan í Hanford var notuð til að framleiða plútoníumið sem notað var í kjarnorkusprengjuna sem varpað var á Nagasaki í Japan í síðari heimstyrjöldinni. Svæðið er í um 300 km fjarlægð frá Seattle og eru þar um 60% af hættulegasta geislavirka úrgangi Bandaríkjanna, en hann er geymdur neðanjarðar í 177 geymum sem eru komnir til ára sinna og nokkrir þeirra farnir að leka.

Hreinsun svæðisins hefur verið í vinnslu frá því á níunda áratug síðustu aldar og nemur kostnaðurinn um tveimur milljörðum Bandaríkjadala á ári.

Orkustofnunin hefur tilkynnt að hún hyggist samstundis byrja að rannsaka einn úrgangsstrauminn Savannah River Plant verksmiðjunni til að kanna hvort hægt sé að breyta öryggisskilgreiningunni.

„Við erum spennt fyrir því að geta dregið hraðar úr hættunni í Suður-Karólínuríki með þessu,“ hefur Guardian eftir Dabber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert