Stærsti dýrasjúkdómafaraldur sögunnar

Svínapestin er ekki hættuleg mönnum, en banvæn svínum.
Svínapestin er ekki hættuleg mönnum, en banvæn svínum. AFP

Yfirvöld í Suðaustur-Asíu reyna nú að ráða niðurlögum bráðsmitandi afrískrar svínapestar, sem kölluð hefur verið svína-ebóla, en hún hefur þegar leitt til þess að fella hefur þurft milljónir svína í Kína og Víetnam.

Guardian segir sérfræðinga óttast að baráttan sé töpuð á þessum landsvæðum, en þetta er stærsti faraldur dýrasjúkdóms sem heimurinn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir.

Svínapestin er ekki hættuleg mönnum, en er banvæn svínum. Hún greindist fyrst í Kína í ágúst í fyrra og hefur ollið miklu tjóni þar. Nú þegar hefur meira en 1,2 milljónum svína verið slátrað í Kína vegna pestarinnar. Um helmingur allra svína í heiminum eru ræktuð í Kína og hafa fréttirnar leitt til umtalsverðrar hækkunar á verði á svínakjöti.

Ekki er til nein bólusetning gegn svínapestinni sem veldur innri blæðingum og svo dauða hjá svínum. Eina leiðin til að hemja pestina er því að slátra þeim dýrum sem sýkjast. Telja sumir sérfræðingar að til þess kunni að koma að slátra þurfi allt að 200 milljónum svína í Kína.

Engin leið til að stöðva útbreiðsluna

Vírusinn sem veldur svínapestinni getur ferðast langar vegalengdir, enda getur hann lifað í nokkrar vikur á fatnaði, farartækjum og ýmsu öðru.

Svínapestin hefur enda breiðst sem sinueldur um ríki Asíu og hefur valdið mikilli eyðileggingu hjá svínabændum í Víetnam og Kambódíu. Tilfellum hefur einnig fjölgað í Mongólíu, Norður-Kóreu og Hong Kong undanfarnar vikur og mikill viðbúnaður er nú í Taílandi, sem er annar stærsti svínakjötsframleiðandi Asíu. Þá láta yfirvöld í Suður-Kóreu nú framkvæma blóðrannsóknir á svínum við landamæri ríkisins.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNFAO, og sérfræðingar óttast að svínapestin skjóti næst upp kollinum á Filippseyjum, Laos og í Búrma (Mijanmar) þar sem lítið eftirlit sé á landamærum þessara ríkja með flutningi á svínum og svínaafurðum.

„Þetta er stærsti faraldur dýrasjúkdóms sem við höfum nokkurn tímann upplifað á jörðinni,“ segir Dirk Pfeiffer, dýrasjúkdómafaraldursfræðingur við City University í Hong Kong sem jafnframt er sérfræðingur í afrísku svínapestinni. „Þetta fær gin- og klaufaveikina og kúriðuna til að fölna í samanburði við þann skaða sem hún veldur og við höfum enga leið til að stöðva útbreiðsluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert