Kúvendir í þungunarrofsmáli

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, segist ekki lengur styðja stjórnarskrárbreytingu frá 1976 sem kom í veg fyrir það að opinbert fjármagn yrði notað til að niðurgreiða þungunarrof bandarískra kvenna nema lífi þeirra væri ógnað og í tilfellum sifjaspella eða nauðgunar.

Biden hefur löngum stutt breytinguna, en eftir mikla gagnrýni frá keppinautum hans um tilnefningu demókrata til forsetaefnis hefur hann dregið stuðning sinn tilbaka.

„Ef ég trúi því að heilbrigðisþjónusta séu réttindi, sem ég geri, get ég ekki lengur stutt breytingu sem skilyrðir þessi réttindi við póstnúmer,“ sagði Biden.

Talsmenn framboðs Biden sögðu á miðvikudag að hann styddi enn breytinguna, en á stuðningsfundi í gær hafði hann skipt um skoðun. Að hans sögn vegna ákvarðana löggjafa í ákveðnum fylkjum repúblikana sem hafa nýverið samþykkt „öfgafull lög sem brjóta augljóslega gegn stjórnarskrárvörðum réttindum,“ sem eru varin af hæstaréttardómnum Roe gegn Wade.

Segir aðstæðurnar hafa breyst

Biden sagðist ekki ætla að biðjast afsökunar á fyrri stuðningi sínum við breytinguna en að aðstæðurnar hafi breyst.

„Ég hef verið að vinna að loka fínpússun á heilbrigðisáætlun minni eins og aðrir í þessari kosningabaráttu og ég hef átt í vandræðum með þau vandamál sem hafa nú komið upp með Hyde-breytinguna,“ sagði hann við stuðningsmenn sína.

„Ég get ekki réttlætt það að milljónir kvenna hafi ekki aðgang að þeirri þjónustu sem þær þurfa og möguleikann á að nýta stjórnarskrárvarin réttindi sín,“ sagði hann.

Biden hefur verið gagnrýndur fyrir fyrri afstöðu sína af baráttu samtökum kvenna og öðrum samtökum á borð við Planned Parenthood.

Eftir því sem fram kemur á CNN voru slík samtök þó fljót að hrósa honum fyrir breytta nálgun.

„Við fögnum því að Joe Biden hlusti á raddir milljóna kvenna og útskýrði nánar afstöðu sína til Hyde-breytingarinnar. Það er á hreinu að breytingin mismuni gegn öllum konum en sérstaklega fátækum og þeldökkum konum,“ sagði Ilyse Houge, forseti NARAL, sem eru baráttusamtök fyrir vali kvenna um þungunarrof.

Þá sagðist Leana Wen, forseti Planned Parenthood í Twitter-færslu sinni vera ánægð að sjá Biden „fagna því sem við höfum lengi vitað að er satt: Hyde hindrar fólk, sérstaklega þeldökkar og tekjulágar konur, frá aðgangi að öruggri og löglegri þungunarrofsþjónustu.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert