Samkynhneigð refsilaus í Botswana

Samkynhneigð er nú ekki lengur refsiverð í Botswana.
Samkynhneigð er nú ekki lengur refsiverð í Botswana. AFP

Hæstiréttur Botswana hefur snúið lögum frá nýlendutímanum sem gerðu samkynhneigð refsiverða. Er um að ræða tímamótasigur fyrir hinsegin fólk í Afríku, en fyrir aðeins um mánuði úrskurðaði Hæstiréttur Kenía að sambærileg lög skyldu standa óbreytt og er samkynhneigð því áfram refsiverð þar í landi.

Samkvæmt 164. og 167. greinum refsilöggjafar Botswana hefur samkynhnegið hingað til verið refsiverð og hafa samkynhneigðir einstaklingar átt yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi fyrir kynhneigð sína.

Letsweletse Motshidiemang, 21 árs námsmaður við Háskólann í Botwswana, fór með málið fyrir dómstóla í mars og bar fyrir sig þau rök að samfélagið hefði breyst og að samkynhneigð væri mun víðar viðurkennd en áður var.

Þó að fordómar gagnvart samkynhneigðum séu víða útbreiddir um landið hefur mikill árangur náðst fyrir hinsegin fólk í Botswana á síðustu árum. Eftir nýja starfsmannalöggjöf frá árinu 2010 er ólöglegt að segja einstaklingum upp starfi vegna kynhneigðar sinnar, og tveir úrskurðir dómstóla frá 2017 greiddu leiðina fyrir trans-fólk í landinu svo auðveldara sé að breyta formlegu kyni sínu hjá yfirvöldum. 

Eftir hrottalega árás á trans-konu í nóvember lýsti forseti Botswana, Mokgweetsi Masisi, yfir stuðningi sínum við hinsegin samfélagið. „Það er margt fólk í sambandi með manneskju af sama kyni sem hefur orðið fyrir ofbeldi og þjáðst í þögn af ótta við mismunun. Eins og aðrir borgarar eiga réttindi þess að vera vernduð,“ sagði Masisi.

Af 54 löndum í Afríku hafa að minnsta kosti 32 þeirra sett lög sem gera samkynhneigð ólöglega eftir því sem fram kemur á CNN. Í Nígeríu, Sómalíu og Súdan eiga samkynhneigðir yfir höfði sér dauðadóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert