Lífsnauðsynleg lyf bárust til Venesúela

Neyðaraðstoðin kemur sér vel fyrir sjúkrahúsin í landinu.
Neyðaraðstoðin kemur sér vel fyrir sjúkrahúsin í landinu. AFP

Önnur sending Rauða krossins af lífsnauðsynjum barst til Venesúela í gær. Þar af eru um 24 tonn af lyfjum og litlum rafstöðvum sem ætlaðar eru til að nota á sjúkrahúsum í landinu. Gríðarleg þörf er á öllum búnaði á sjúkrahúsum í landinu en viðvarandi lyfjaskortur og rafmagnsleysi hefur kostað marga lífið.  

Rauði krossinn sagði að staðan á heilbrigðisþjónustu í landinu hafi aldrei verið jafn slæm og síðustu ár. Aðstoðin barst frá Panama og fluttu sex vöruflutningabílar aðföngin í borgina Caracas. 

Talið er að um fjórðungur þessarar 30 milljóna þjóðar sé í bráðri þörf fyrir neyðaraðstoð, samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum.  

Í apríl samþykkti Nicolas Maduro, forseti landsins, að hleypa Rauða krossinum inn í landið með neyðaraðstoð. Hann skrifaði undir samkomulag þess efnis í miðri valdabaráttu við Juan Guaido, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela og yfirlýstan forseta landsins.

Í febrúar hindraði Maduro að hjálpargögn bærust inn til landsins frá landamærum Bandaríkjanna. Ástæðan var sú að hann taldi að Bandaríkjamenn reyndu að sölsa undir sig landið og auk þess studdi Guaido þessar aðgerðir.  

Alþjóðlegi Rauði krossinn hefur ítrekað að neyðaraðstoð til þjóðarinnar leysi ekki stjórnarkreppu landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert