Laug um hetjudáð í skotárás á skóla

Blóm og tusku­dýr voru lögð við skólalóð Santa Fe-skólans í …
Blóm og tusku­dýr voru lögð við skólalóð Santa Fe-skólans í fyrra. AFP

Maður, sem fullyrti að hafa verið afleysingakennari og eftirlifandi í skotárás á framhaldsskóla í Texas-ríki í maímánuði í fyrra, vann raunverulega aldrei í skólanum. Var saga hans tilbúningur frá upphafi til enda. 

David Briscoe sagði fjölmiðlum frá því hvernig hann verndaði nemendur meðan á árásinni stóð í Santa Fe-skólanum, en átta nemendur og tveir kennarar létust í árásinni. 

Sagðist Briscoe hafa hlaðið fyrir hurðina að skólastofu sinni með borðum og stólum, slökkt ljósin og sagt nemendum sínum að leggjast niður á gólfið. 

„Mér leið eins og þetta væru margar klukkustundir, en einn nemandi minn sagði að þetta hefðu verið 30 til 45 mínútur. Ég var með í kringum 10 til fimmtán nemendur og ég er þakklátur fyrir að þau séu óhult,“ sagði Briscoe við fjölmiðla. 

BBC greinir frá því að blaðamaður Texas Tribune, Alexandra Samuels, hafi nú sagt frá því að í apríl hafi Briscoe haft samband við sig varðandi framhaldssögu af árásinni í ljósi aukinnar sjálfsmorðstíðni á meðal eftirlifenda skotárása. 

Sagðist Samuels hafa rætt við Briscoe í síma í rúmlega hálftíma og sagðist hann meðal annars hafa hætt kennslu eftir árásina og orðið þunglyndur. 

Hann sagði það að „vita að það er blóð á þessum veggjum“ þýddi að hann gæti ómögulega farið aftur í skólann. 

Frásögnin vakti grunsemdir

Samuels sagði að frásögn Briscoe hafi vakið upp grunsemdir og hún hafi haft samband við skólann sem staðfesti að enginn undir nafninu David Briscoe hafi nokkurn tímann unnið við skóla í Santa Fe. Þá kom í ljós að lögheimili Briscoe hafi alla tíð verið í Flórída-ríki. 

„Við erum gríðarlega vonsvikin að einstaklingur sem hefur aldrei verið hluti af skólasamfélaginu okkar skuli þykjast vera eftirlifandi frá þessum harmleik sem samfélagið okkar gekk í gegnum,“ sagði forstöðumaður skólamála í Santa Fe. 

Hinn átján ára gamli Dimitri­os Pagourtz­is er í gæsluvarðhaldi og stendur frammi fyrir ákærum um að hafa myrt samnemendur sína og kennara. 

Pagourtz­is var sjálf­ur nem­andi í skól­an­um. Hann fór vopnaður hagla­byssu og skamm­byssu í skól­ann föstu­daginn 18. maí 2018 og hóf skot­hríð. Tíu lét­ust og þrett­án særðust í árás­inni sem var sú 22. sem gerð var í banda­rísk­um skóla á síðasta ári og jafnframt sú fjórða mannskæðasta frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert